133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:31]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að við ræðum þessi mál hér. Þetta er ástand sem við eigum ekki að sætta okkur við og gerum raunar ekki.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að elta ólar við háttstemmda umræðu af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem er hennar einkennismerki í ræðustóli. Ég læt það eiga sig. En ég vil geta þess að ég ætla mér að leita eftir samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að vinna gegn launamun kynjanna. Ég vísa til sambærilegra aðgerða sem teknar voru upp í Finnlandi í þessu sambandi og hafa gefið góða raun. Ég vil líka segja að við þurfum og verðum að ná einhvers konar þjóðarsátt um þessi mál. Það er ljóst að stjórnvöld ein geta ekki náð tilætluðum árangri. Þetta er miklu stærra og viðameira mál en svo.

Endurskoðun jafnréttislaga stendur yfir og ég tel fulla ástæðu til að kanna hvort við getum fetað í fótspor Svía og Finna t.d. varðandi aðgengi trúnaðarmanna að launaupplýsingum. Ég mun senda niðurstöður þessarar nýju könnunar, sem ég minntist á áðan, til endurskoðunarnefndarinnar og óska eftir tillögum um úrbætur. Ég mun jafnframt koma þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur frá Finnlandi og Svíþjóð á framfæri við nefndina sem er að endurskoða jafnréttislögin.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst því að þetta ástand er ekki viðunandi og við verðum að leita allra leiða sem hugsanlegar eru til að bæta hér úr. Það fer ekkert á milli mála að til þess er fullur vilji og áhugi í félagsmálaráðuneytinu. Ég vil taka það skýrt fram þrátt fyrir það sem ýmsir hafa sagt í þessari umræðu og ég vísa til föðurhúsanna.