133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framhaldsskóli í Mosfellsbæ.

120. mál
[15:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Valdimar L. Friðrikssyni fyrir að koma inn á þetta mikilvæga mál. Það er rétt sem fram kom í máli hans að nefnd á vegum ráðuneytis menntamála hafði það verkefni síðastliðið vor að meta þörfina á nýjum framhaldsskólum því það eru margir sem hafa áhuga á að byggja upp framhaldsskóla. Til þess verður að hafa ákveðnar forsendur, t.d. íbúafjölgun, spá um íbúaþróun en einnig þarf að taka tillit til annarra þátta, þ.e. til byggðalegra þátta. Þó að færri íbúar séu á ákveðnum svæðum þá verður líka að taka tillit til annarra sjónarmiða en eingöngu íbúafjölgunar og aðgengis að framhaldsskólum.

Nefndin lagði fram hugmyndir um hvar framhaldsskólarnir ættu að rísa og þá í ákveðinni röð til að reyna að forgangsraða málum. Hún lagði m.a. til að skóli yrði reistur við utanverðan Eyjafjörð og að síðan yrði reistur skóli í Mosfellsbæ og þetta eru þeir skólar sem eru fremstir í röð nýrra framhaldsskóla. Ég tók ég undir þessi sjónarmið nefndarmanna í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, eins og hv. þingmaður kom inn á, og þau hafa ekki breyst síðan.

Í báðum þessum tilvikum komu fleiri en eitt sveitarfélag að málum og ég hef átt í samræðum við heimamenn fyrir norðan og um leið lagt ríka áherslu á samstöðu Siglfirðinga, Ólafsfirðinga og Dalvíkinga um stofnun slíks skóla og að sjálfsögðu skiptir miklu máli að göngin verði þá komin. Ég greini samhljóm í máli okkar þingmanna um að menn reki skólakerfið strax frá upphafi og þessa nýju skóla þannig að þeir verði skipulagðir í samræmi við ýtrustu gæðakröfur og af faglegum metnaði og það er fagnaðarefni að hv. þingmenn taka undir það. Þetta hafa að sjálfsögðu sveitarfélögin bæði syðra og nyrðra rætt og skoðað.

Hvað varðar Mosfellsbæinn þá byggðu Mosfellsbær og Reykjavík Borgarholtsskóla sameiginlega á móti ríkinu á sínum tíma. Því má segja að eðlilegt sé að þessi sveitarfélög ræði hugsanlegt samstarf um staðsetningu nýs skóla ekki síst með tilliti til nýrrar uppbyggingar hugsanlega í Geldinganesi eða við Úlfarsfell. En ég tek undir það með hv. þingmanni og nefndarmönnum að það skiptir máli að tekið verði á þessu og þá að menn móti stefnuna um að það rísi framhaldsskóli í Mosfellsbæ. Það er rétt að það er enginn framhaldsskóli í Mosfellsbæ, í ört vaxandi sveitarfélagi en það er líka athyglisvert að skoða framhaldsskólakosti á suðvesturhorninu. Ef mig man rétt eru allt að 80% af framhaldsskólum og þeir nemar sem stunda nám þar vestan við Elliðaár. Þegar maður skoðar kortið þá vantar greinilega skóla á því svæði sem nefndarmenn komu inn, þ.e. í Mosfellsbænum og ekki bara vegna staðsetningarinnar heldur líka vegna íbúafjölda og væntanlegrar íbúaþróunar. Hið sama gildir um annan hluta á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Norðlingaholtið sem er að byggjast upp í Reykjavík. Kópavogur er líka að þenjast út, Salahverfið, þannig að það er líka þörf á nýjum framhaldsskóla á því svæði miðað við íbúaþróun en það skiptir máli að sveitarfélögin vinni saman eins og gerðist gæfulega með Borgarholtsskóla og gerist vonandi fyrir norðan í samvinnu við ríkið. Þörfin er til staðar og við erum búin að forgangsraða hvar væntanleg skólauppbygging þarf að eiga sér stað á næstu árum.

Það liggur í hlutarins eðli að ekki er unnt að tímasetja nákvæmlega hér og nú úr þessum ræðustóli hvenær byggingarframkvæmdir hefjast eða hvenær skólastarfið hefst, sem er náttúrlega mikilvægasti parturinn. En að mínu mati má í hvorugu tilfellinu missa mikinn tíma og ég er þess mjög hvetjandi, eins og mér heyrist hv. þingmaður einnig vera, að þessu máli verði hraðað fremur en hitt.