133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

staðbundið háskólanám á landsbyggðinni.

157. mál
[15:21]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa þörfu og ágætu fyrirspurn. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að efla aðgengi að háskólanámi og reyndar ekki aðeins háskólanámi heldur hvers kyns námi á landsbyggðinni því að það hefur birst okkur í svörum með fyrirspurnum að menntunarstig er mun lægra úti á landi.

Það vill þannig til að menntamálaráðuneytið er aðeins að axla örlítinn hluta af þeim kostnaði sem fellur til við t.d. háskólanám úti á landi því það er sett á herðar sveitarfélaganna að standa undir námsverunum vítt og breitt um landið, alls staðar þar sem símenntunarmiðstöðvarnar eru sjálfar með höfuðstöðvar sínar, þar taka sveitarfélögin reyndar líka þátt. Þar með er menntamálaráðherra að mismuna þeim sem búa á þeim stöðum þar sem háskólarnir sjálfir eru til staðar og þeim sem búa annars staðar á landinu. Þetta er algerlega óviðunandi fyrir landsbyggðarfólk.