133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

staðbundið háskólanám á landsbyggðinni.

157. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Svör ráðherra voru mér nokkur vonbrigði. Ég spurði: Stendur til að auka framboð á staðbundnu háskólanámi á landsbyggðinni? Ef svo er, hvar og hvers konar nám verður í boði? Háskólamenntunin um fjarnám á símenntunarstöðvunum er meira og minna upp á annars vegar fjárlögin komin og fjárlaganefnd og hins vegar upp á sveitarfélögin, sem standa mjög að því námi líka. Ég vil fá það fram hvort auka eigi framboð á staðbundnu námi til að háskólasetrin standi undir nafni, hvort eigi að byggja upp háskólastofnun á Ísafirði, hvort eigi að byggja upp staðbundið háskólanám á Suðurlandi og Norðurlandi vestra. Hver er framtíðarsýn hæstv. ráðherra í þessu nákvæmlega?

Það er mikið ójafnvægi á milli þeirra fjármuna sem varið er til háskólamenntunar annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar úti á landi eins og ég rakti áðan. Af þeim 12 milljörðum sem varið er til háskólamenntunar á næsta ári er einungis 15% þeirra fjármuna ráðstafað í háskólamenntun úti á landi. Ég tel að stórauka eigi framboð á staðbundnu háskólanámi úti á landi, ekki með einhverri hægfara þróun í gegnum símenntunarstöðvarnar eingöngu, heldur með fastri stefnumótun af hálfu stjórnvalda um uppbyggingu á háskólanámi rétt eins og gert var með Háskólann á Akureyri á sínum tíma. Það er kjarni málsins. Auðvitað á að tengja starfsemi símenntunarmiðstöðvanna og gera þeim kleift að vaxa og dafna og þróast í það að vera háskólastofnanir en það skortir skarpa og afgerandi framtíðarsýn af hálfu hæstv. menntamálaráðherra í nákvæmlega þessu máli, í uppbyggingu staðbundins háskólanáms úti á landi og hvar og hvort eigi ekki að nýta þá fjármuni sem væri eðlilegt að nýta út frá þeirri skiptingu sem ég rakti áðan á annars vegar íbúafjölda úti á landi og í Reykjavík og síðan hvernig fjármununum er varið nú í dag.