133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[16:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni er búið að gera mjög mikið í þessum málum hin seinni ár og ég vil taka það fram að það eru tveir málaflokkar sem ég hefði viljað beita mér sérstaklega í í heilbrigðisráðuneytinu nú, og það eru málefni aldraðra og lýðheilsumál. Að sjálfsögðu ber hér að draga fram bæði hlut aðstandenda og fagfólks sem hefur verið mjög leiðbeinandi í þeim úrræðum sem gripið hefur verið til.

Að mínu mati er Landspítalinn að sinna þessum hópi vel, það er alveg ljóst. Það er mjög góð þjónusta á Landakoti og á öldrunardeildinni í Fossvogi og það er verið að sinna hópnum almennt vel, ég held að ekki sé hægt að segja annað með neinu réttmæti. Hér kom fram að tvö hvíldarrými væru á Landakoti og það er rétt. Og bráðlega verða opnuð tvö í Roðasölum. Ég dró hér fram að það væru sex hvíldarrými á Eir sem einnig eru nýtt til innlagna fyrir heilabilaða, en sérfræðingarnir tala um að þeir vildu gjarnan fjölga slíkum rýmum á Landakoti upp í fjögur og það þarf að skoða innan spítalans hvort hægt er að mæta því á næstunni.

Við erum að fara að stórfjölga hjúkrunarrýmum almennt en líka fyrir heilabilaða og ég vil nefna þessi 30 rými á Suðurlandsbrautinni. Það er líka hægt að þjónusta þennan hóp í rýmum sem eru ekki stúkuð af í sérstakar deildir vegna þess að einstök tilvik í þessum hópi eru mjög mismunandi og þá hvaða þjónustu viðkomandi þarf.

Ég vil taka það fram að það er þjónusta úti á landsbyggðinni, það er ekki rétt að svo sé ekki. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom hér upp og ég vil benda honum á að í hans kjördæmi, á Sauðárkróki, er deild með tíu rýmum fyrir heilabilaða þannig að það er ekki rétt að enginn þjónusta sé á landsbyggðinni. (Gripið fram í: … það er verið að tala um sérhæfða þjónustu.) Sérhæfð þjónusta fyrir heilabilaða er á Sauðárkróki.

Ég vil draga það fram, virðulegi forseti, að við erum að gera góða hluti. Þjónustan er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, hún er líka úti á landsbyggðinni en það eru ýmis úrræði sem þarf að skoða betur eins og þessi pláss á Landakoti.