133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég tel ástæðu til að hæstv. sjávarútvegsráðherra skýri betur ýmis atriði sem varða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hefja hvalveiðar. Það bar við í gær að hæstv. umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, kom fram og lýsti sig hafa efasemdir um ágæti þessara veiða og tók beinlínis svo til orða að hún setti fyrirvara við hvalveiðar nú. Hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsti Alþingi ekki um að ekki væri full samstaða um málið í ríkisstjórn þegar hann kynnti það fyrir þinginu og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir því hver staða málsins sé í ríkisstjórn. Er það þannig að ekki hafi verið full samstaða um að ríkisstjórnin stæði á bak við þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra á sínum tíma?

Þá verður einnig að lýsa nokkurri undrun yfir því að sjávarútvegsráðuneytið skuli úthluta veiðiheimildum og heimila fyrirtæki að hefja veiðar sem að því er best verður séð fullnægir síðan ekki skilyrðum laga um vinnslu afurðanna eða meðferð afurðanna því að það hefur komið fram að fyrirtækið Hvalur hf. og hvalstöðin í Hvalfirði hefur ekki vinnsluleyfi til manneldisvinnslu á hvalaafurðum. Hugmyndir fyrirtækisins um að vinna hvalkjöt í fiskvinnsluhúsi eða frystihúsi virðast heldur ekki ganga upp því að sjávarspendýr falla ekki undir hefðbundna skilgreiningu laga á sjávarfangi. Hér virðast menn því hafa flýtt sér ansi mikið, satt best að segja, og ég held að hæstv. ráðherra verði að gera okkur betur grein fyrir því hvernig þessum undirbúningi var háttað. Ég man ekki betur en sláturhús í Búðardal hafi ekki fengið að slátra heilt haust af því að dýralæknir hafði ekki gefið því vinnsluleyfi. Það var engin miskunn sýnd þá. Það fékk ekkert leyfi heldur var því einfaldlega bannað að hefja starfsemi en annað virðist gilda um hval.

Við megum ekki við því í þessu erfiða máli að verða fyrir einhverjum áföllum eða klaufaskap. Veðrið er skollið á og við þurfum auðvitað að standa það af okkur en ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að útskýra hvernig hún hefur staðið að þessum undirbúningi.