133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:44]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum styðjum þessar hvalveiðar heils hugar. Við erum sannfærðir um að ef þjóðin og sérstaklega stjórnarandstöðuflokkarnir væru sammála okkur og stjórnvöldum í þessu máli, að fylgja samþykkt Alþingis eftir, þá stæðum við betur að vígi. En það er enn þá alvarlegra að hæstv. umhverfisráðherra virðist gefa upp með það að hún sé ósátt við þessa ákvörðun. Það veikir stöðu Íslands miklum mun meira en afstaða stjórnarandstöðuflokkanna og það er mjög alvarlegt að ríkisstjórnin geti ekki komið einhuga fram í þessu máli og þetta er í raun fáránlegt að umhverfisráðherra sé ekki viðstödd þessa umræðu og fari yfir afstöðu sína og geri grein fyrir henni gagnvart þinginu.

Í dag fara fram viðræður við sjávarútvegsráðherra Breta um þetta mál og ég álít að þessar yfirlýsingar hennar hafi veikt stöðu Íslands. Við höfum mjög góða stöðu í þessu máli gagnvart viðkomandi ráðherra vegna þess að það liggur fyrir að Bretar hafa ekki verið barnanna bestir hvað varðar umgengni við sjóinn. Það liggur fyrir að þeir skulda íslenskum stjórnvöldum svör við þeirri geislavirkni sem þeir voru valdir að snemma á síðasta ári og það er mín skoðun að sendiherra Íslands eigi að fara á þennan fund sem fer fram í dag og krefjast þess að Bretar, sem lýsa yfir áhyggjum yfir umhverfismálum, geri grein fyrir þeirri geislavirkni sem þeir hafa valdið á höfunum í kring áður en þeir fara að skipta sér af sjálfbærum veiðum sem eru langt innan marka þess sem hvalastofnarnir þola.