133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ljóst að komið er upp misræmi í ríkisstjórninni varðandi þessa ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hann segir í ræðustóli núna að hafi verið sín ákvörðun sem hann hafi tilkynnt ríkisstjórninni.

Ég beini máli mínu til hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar, og til ferðamálaráðherra, hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar. Það kom fram í grein í Skessuhorni í gær að Halldór Runólfsson yfirdýralæknir hefði sagt í samtali við Skessuhorn að löggjöfin við veiðarnar væri orðin gömul, hún væri frá 1949. Samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið hafði verið fyrir Landbúnaðarstofnun væri ljóst að endurskoða yrði allt lagaumhverfið við vinnslu.

Þetta var vitað á Vesturlandi í september því heilbrigðiseftirlit Vesturlands fjallar um þessi mál 27. september. Á fundi heilbrigðisnefndar Vesturlands 27. september voru rædd málefni Hvals hf. og hugmyndir um að fara að vinna kjöt í hvalstöðinni. Það var ljóst af þeim fundi að það kæmi aldrei til með að verða heimilað, að vinna kjöt til manneldis í hvalstöðinni.

Sömuleiðis kemur í ljós í grein Skessuhorns að á Fíflholti á Mýrum, sem er urðunarstaður Sorpurðunar Vesturlands, sé kannski ekki pláss til að urða allt það sem til fellur af þessum gríðarlegu skepnum. Fram kemur að 20 tonn af sláturúrgangi eru urðuð í hverjum mánuði í Fíflholti. En hins vegar sé ljóst að það séu 20 tonn af hverri skepnu sem veiðist sem gangi af og komi til urðunar á þeim sama urðunarstað. Þessi urðunarstaður komi til með að eiga erfitt með að taka á móti þessu öllu. Ég er því ekki hissa þó að fyrirvari hæstv. umhverfisráðherra sé kominn fram. Hann kemur kannski fullseint.

En ég held að ljóst sé að í þessu máli öllu þurfi hæstv. samgönguráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra að kveðja sér hér hljóðs og segja hv. þingheimi (Forseti hringir.) og þjóðinni hver sjónarmið þeirra séu í þessum efnum. Hafa þeir líka fyrirvara?