133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Menn mega ekki gleyma því að þessi ákvörðun var tekin af Alþingi en ekki ríkisstjórn, að hefja hvalveiðar. Það er pólitísk ákvörðun Alþingis, löggjafarvaldsins, að hefja þessar veiðar og fela ríkisstjórninni framkvæmdina. Sjávarútvegsráðherra fer með málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Um það er enginn vafi.

Menn eiga ekki að flýja undan ábyrgð, menn sem hér í þessum sal fyrir sjö árum stóðu að því, (Gripið fram í: Ég stóð ekki að því.) að Alþingi tók þessa ákvörðun með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, með 37 atkvæðum gegn 7, virðulegi forseti.

Menn mega ekki — þeir sem í hjarta sínu eru á móti málinu eiga þá að segja það, en ekki að skýla sér á bak við hjásetu eða gagnrýna formsatriði. Vegna þess að það er gagnrýni á formsatriði í þeim tilgangi að grafa undan pólitískum stuðningi stjórnvalda við ákvörðunina sem liggur að baki orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og fleiri í þessum sal, (Gripið fram í: Segðu þetta við flokkssystur þína, umhverfisráðherra.) sem eru að vinna að þessu í þessum sal, herra forseti. (Gripið fram í: Æstu þig við annan.) (MÁ: Hvað með Jónínu, er hún að svíkja?)

Virðulegi forseti. Þeir eru órólegir, þingmennirnir.

(Forseti (RG): Forseti óskar eftir að það sé hljóð í salnum.)

Þeir eru órólegir, þingmennirnir sem eru á móti málinu en þora ekki að segja það og ráðast á formsatriði. Það er eðlileg stjórnsýsla að taka ákvörðun um veiðar. Síðan er það líka eðlileg stjórnsýsla að þeir sem vilja fá að veiða eða vinna, verði að uppfylla almenn skilyrði.

Í þeim farvegi er málið, virðulegi forseti, að þeir sem ætla sér að fá að veiða hval verða að uppfylla almenn skilyrði til þess. Og þeir sem ætla sér að fá að vinna hvalaafurðir verða að uppfylla almenn skilyrði til þess. Það er ekkert að því þó öll leyfi liggi ekki fyrir hjá þeim sem hafa áhuga á því. Þeir verða bara að uppfylla leyfin, rétt eins og menn þurftu að gera í Búðardal, virðulegi forseti.