133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það voru sendar til mín nokkrar spurningar í gær og ég heyri að hv. þingmaður komst ekki yfir þær allar enda tíminn naumur en ég mun gera mitt besta til að reyna að svara sem flestu. En ég vil sérstaklega fagna því að þessi málefni eru tekin hér upp og þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að gera það og að taka líka undir aðgerðaáætlunina í meginatriðum, ég vil sérstaklega þakka fyrir það.

Aðgerðaáætlunin sem ég kynnti fyrir stuttu er byggð á nokkrum skýrslum og úttektum sem hafa verið gerðar að undanförnu. Þær tillögur sem þar hafa komið fram eru mjög góðar. Núna síðast fengum við tillögur frá sænskum sérfræðingum og við gerð tillagnanna var líka tekið tillit til þeirra en þær eru flestar samhljóða eða svipaðar og það einfaldaði málið mjög þegar ákveðið var að ráðast í aðgerðaáætlunina.

Aðgerðirnar sem ég er að fara í byggjast í fyrsta lagi á því að vera raunhæfar. Í öðru lagi byggjast þær á því að vera innan fjárhagsramma, að sjálfsögðu, og í þriðja lagi er verið að taka á brýnustu vandamálunum þannig að það er mjög markviss forgangsröðun sem felst í aðgerðaáætluninni. Hún byggir á því að styrkja heilsugæsluna þannig að heilsugæslan geti tekið meira á sig. Það er verið að styrkja Miðstöð heilsuverndar barna þannig að þar sé hægt að sinna greiningunum betur og þannig er létt á BUGL og biðlistinn þar mun þá styttast. Það kom fram í fjölmiðlum hjá sviðsstjóra geðsviðs LSH að ef vel er að verki staðið verður hægt að stytta biðlistann niður í ekki neitt, líklega síðla á næsta ári. Ég er búinn að kynna allar þessar aðgerðir opinberlega en ég ætla samt að renna hratt yfir þær núna.

Hér er spurt hvort aðgerðaáætlunin verði að fullu komin í framkvæmd bráðlega og hvenær og hvort hún hafi verið kostnaðargreind. Já, aðgerðaáætlunin er komin í framkvæmd. Það er mjög mismunandi hve langan tíma tekur að hrinda henni í framkvæmd. Flestar aðgerðirnar munu koma til framkvæmda alveg á næstunni en bygging BUGL er það sem tekur lengstan tíma og það er 2008 sem viðbótarbyggingin verður tilbúin. Hún kostar um 334 millj. kr. og af því eru 80 millj. gjafafé en þjónustuþátturinn í aðgerðaáætluninni kostar 60 millj. kr.

Hér er spurt hvort ég telji að stofnanirnar hafi fjármagn til að uppfylla það sem kemur fram í aðgerðaáætluninni. Áherslurnar eru allar raunhæfar. Þær falla bæði innan fjárhagsramma stofnana og svo hefur verið tryggt sérstakt fjármagn til að koma til móts við aðgerðirnar.

Varðandi greiðsluþátttöku TR í starfi fleiri sérfræðinga þá er því til að svara að áherslurnar sem eru í aðgerðaáætluninni gera ráð fyrir uppbyggingu teyma sem skipuð verða ýmsum sérfræðingum. Það fer eftir því hvað heilsugæslan telur eðlilegt í því sambandi og réttmætast og það er ekki gert ráð fyrir því að greiðsluþátttaka TR verði gagnvart þessum teymum. Það verður greitt fyrir þá þjónustu í því umhverfi sem heilsugæslan vinnur í, innan heilsugæslunnar.

Það er spurt hvort ég telji að nægjanlegt framboð verði á barnageðlæknum og öðrum sérfræðingum í meðferð þessara barna en það er alveg ljóst að ég tel að í náinni framtíð munum við áfram búa við skort á barnageðlæknum og væri mjög brýnt verkefni að reyna að fjölga þeim sem ekki hefur tekist enn.

Það er spurt hvort Miðstöð heilsuverndar barna eigi að sinna vægari greiningu barna á landsbyggðinni en það er þannig að miðstöðin á að sinna þjónustu á landsvísu m.a. með alls kyns ráðgjöf og fræðslu en vægari greiningar barna með geðraskanir munu færast meira út til landsbyggðarinnar í framtíðinni. Nú þegar er verið að greina að hluta til á landsbyggðinni en það er eðlilegt að það verði gert í auknum mæli. Það er miklu betra fyrir börnin og fjölskyldurnar.

Það er spurt af hverju barna- og unglingageðsvið FSA sé ekki inni í aðgerðaáætluninni og hvort starfsemin þar verði efld. Við þessa aðgerðaáætlun er fyrst og fremst litið til brýnustu vandamálanna þar sem vandinn er mestur og það er alveg ljóst að vandinn er mestur á BUGL þannig að aðgerðaáætlunin beinist að því að stytta biðlistana þar og efla þjónustuna innan heilsugæslunnar en á FSA er búið að opna mjög öfluga barna- og unglingageðdeild og hún mun að sjálfsögðu sinna sínum málum áfram eins og verið hefur.

Spurt er um samstarf ráðuneyta. Já, ég mun beita mér fyrir að efla samstarf ráðuneytanna því það er alveg ljóst að tillögurnar ganga mjög mikið út á samstarf þeirra því þessi málaflokkur gengur þvert á ráðuneytin.

Virðulegur forseti. Mér hefur ekki tekist að svara öllum spurningum sem mér bárust en ég mun reyna það í seinna svari mínu.