133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér til umræðu, og það er reyndar ekki í fyrsta sinn, um vandamál í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga.

Geðsjúkdómar snerta fjölmarga í samfélaginu og ekki einungis þá sem veikjast heldur einnig og oft ekki síður aðstandendur þeirra. Fullyrða má að viðhorf til geðsjúkdóma hafi breyst til batnaðar á síðustu áratugum. Staðan er erfið og verður sífellt brýnna að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á öllum þjónustustigum, bæði hjá sveitarfélögum og ríki. Lengi hefur verið ljóst að auka þarf úrræði í nærumhverfi barna og unglinga sem glíma við geðraskanir af einhverju tagi. Gríðarlegt álag hefur verið á barna- og unglingadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss um langa hríð, biðlistar langir og mikið álag á starfsfólki deildarinnar. Eins og kunnugt er hafa framkvæmdir við stækkun deildarinnar tafist verulega. Það er orðin mikil nauðsyn á uppbyggingu og stækkun barna- og unglingadeildar og tryggja verður fjármagn til að minnsta kosti næstu þriggja ára svo að stækkun og ný og betri aðstaða leysi þann vanda sem lengi hefur verið í málefnum barna- og unglingageðdeildar.

Aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra ber því vissulega að fagna. Um mitt þetta ár var staðan þannig að þeim sem komu á göngudeild BUGL hafði fjölgað um 30% milli ára og meira en hundrað börn biðu eftir fyrstu komu á göngudeild auk þess sem tugir barna biðu eftir innlögn. Af þessu má sjá að það þarf að bæta grunn- og geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga almennt. Einnig þarf að bæta aðstöðu barna- og unglingageðdeildar eins fljótt og unnt er.

Öllum er ljóst að stjórnvöld verða að sinna þessum málaflokki mun betur en gert hefur verið og ég vona svo sannarlega að þessi umræða á hinu háa Alþingi skili börnum og unglingum ávinningi og forráðamenn sjái fram á að markvisst verði tekist á við þann vanda sem er í þessum málum.

Þó vandinn sé vissulega mestur á höfuðborgarsvæðinu eru svo sannarlega óleyst mál í öðrum landshlutum sem hæstv. ráðherra verður einnig að veita athygli. Það má ekki vera neyðarúrræði fjölskyldna utan af landi að þurfa að flytja búsetu sína til Reykjavíkur í von um betri þjónustu fyrir börn sín á geðheilbrigðissviði.