133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:19]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er svo sannarlega hreyft mikilvægu máli. Talið er að börn og unglingar með geðraskanir geti verið nálægt tvö þúsund í þessu samfélagi á mismunandi stigum þannig að hér er verið að ræða um stóran hóp fólks að viðbættum fjölskyldum þeirra. Það er fagnaðarefni að hæstv. heilbrigðisráðherra hyggst ganga í úrbætur hvað varðar þennan málaflokk vegna þess að við höfum upplýsingar um það sjálfsagt öll og þekkjum öll fjölskyldur sem hafa haft við þennan vanda að glíma. Ég vil sérstaklega benda á að í mörgum tilfellum er verið að búa til skýrslur á skýrslur ofan þar sem fram kemur að hverju stefnir. Ég hef dæmi um skýrslu sem var tekin fjórum sinnum frá sex ára til þrettán ára aldurs og það var fyrir séð hvert stefndi en engin úrræði fyrir hendi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að það er algjörlega nauðsynlegt í mínum huga að efla nærþjónustuna þannig að fólk neyðist ekki til þess að flytja búferlum, sérstaklega utan af landi, þannig að horft verði til þess við úrlausn í málaflokknum að stöðvar eins og FSA verði efld og síðan nærþjónusta, heilsugæslan úti um land og samspil skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu í nærumhverfi fjölskyldnanna og þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.