133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:21]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að við eigum í æ meira mæli að ræða á Alþingi um börn og unglinga þessa samfélags, líðan þeirra, þjónustuna við þau og þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti nú á dögunum áherslur og aðgerðir ráðherrans í þessum málaflokki sem er afrakstur undirbúnings ráðuneytisins og skýrslna sem unnar hafa verið á undaförnum missirum.

Málefni barna og unglinga hafa verið forgangsmál hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra síðustu árin eins og sést á framlögum til málaflokksins. En enn er nokkuð ógert. Ég tek undir þá áherslu sem lögð hefur verið á uppbyggingu og eflingu grunnþjónustunnar, heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar heilbrigðisþjónustunnar. Á síðustu árum hafa verið stigin skref í þá átt með því að ráða inn á heilsugæsluna aðrar fagstéttir eins og sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa. Vil ég nefna teymi sem sett var af stað í Grafarvogi eins og aðrir þingmenn hafa hér nefnt en það var sett af stað að frumkvæði Jóns Kristjánssonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, og er það vel við hæfi þar sem Grafarvogur er jú eitt barnmesta hverfi Reykjavíkur. Víða um land er kominn vísir að svipaðri þjónustu. Við eigum að halda áfram á sömu braut.

Með því að auka hlut heilsugæslunnar í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga tökum við fyrr á vanda barnanna og aukum um leið forvarnir á þessu sviði. Um leið gerum við BUGL og annarri sérfræðiþjónustu kleift að sinna betur þjónustunni gagnvart veikari börnum. Afar brýnt er líka að efla foreldra í sínu hlutverki enn frekar og styðja þá í því.

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna þátt skólanna og þar með sveitarfélaganna. Ég tel að til að ná fram enn betri þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir þurfi heilbrigðisþjónustan, menntakerfið og sveitarfélögin að taka höndum saman og mæta þörfum þessara barna sem og fjölskyldna þeirra. Samhljómur er hér í máli þingmanna um það og ég tel að með opinni umræðu og samstarfi þessara aðila þar sem hver og einn leggi sitt af mörkum er ég fullviss að við munum taka mörg skref fram á veginn í þróun og eflingu þjónustunnar við börn og unglinga með geðraskanir.