133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:26]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja athygli á hinni þörfu umræðu er lýtur að geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Málaflokkurinn er að sjálfsögðu viðamikill og víða hægt að drepa niður fæti á þeim stutta tíma sem gefst við þetta tækifæri í ræðustól Alþingis.

Ég vil nota tækifærið og upplýsa þingheim um árangursríkt starf sem Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar hefur innt af hendi á síðustu árum. Fræðsluskrifstofan hefur lýst yfir vilja sínum til að hanna og þróa forvarnalíkan sem eykur lífshamingju barna og fjölskyldna þeirra. Ef vel tekst til er hægt að nota líkanið á landsvísu.

Aðferðafræðin er með þeim hætti að öllum foreldrum tveggja ára barna á þjónustusvæði skrifstofunnar er boðið upp á námskeið í uppeldistækni sem eykur líkur á að börn verði vel upp alin og minnkar líkur á að börn þrói með sér alvarlega hegðunarörðugleika. Þetta tiltekna starf er nú þegar innt af hendi og eru áfangaskýrslur þar að lútandi til staðar er upplýsa um góðan árangur verkefnisins. Í starfinu er börnum einnig í almennum bekkjardeildum á unglingastigi veitt fræðsla um hvernig best sé að taka á einkennum þunglyndis og kvíða og með þeim hætti er reynt að koma í veg fyrir að þau þrói með sér áðurnefnd einkenni. Árangur af verkefninu er metinn með vísindalegum hætti í samvinnu við sérfræðinga þar sem gerð er nákvæm tímasett verkáætlun líkt og tíðkast í viðamiklum rannsóknarverkefnum sem og með áfangaskýrslum sem skilað er til ráðuneyta einu sinni á ári sem verkefninu fleygir fram.

Þegar til lengdar er litið mun börnum fækka sem þurfa á stofnanavistun að halda vegna erfiðrar hegðunar. Nefna má að eftir að tekið var að kenna foreldrum uppeldistækni í Reykjanesbæ hefur tilvísunum til BUGL, Barna- og unglingageðdeildar Landspítala fækkað mikið frá svæðinu.

Virðulegi forseti. Til að frekari árangur verði raunin er mikilvægt að ráðherrar heilbrigðis-, félags- og menntamála sýni frumkvöðlastarfi Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar viðhlítandi áhuga og tryggi í verki með ákvörðunum sínum að þróun og frekari útfærsla á starfinu fleygi fram. Starfið á að mínu viti að fara fram á landsvísu.