133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er verið að setja viðbótarfé í þennan málaflokk. Auðvitað er ekkert hægt að gera nema fé fáist. Það er búið að tryggja það fjármagn, bæði á yfirstandandi ári en það verður mun meira á næsta ári. Þetta var allt kynnt þegar ég kynnti aðgerðaáætlunina.

Það er verið setja 60 millj. kr. í viðbótarþjónustu og svo fara háar upphæðir í viðbótarbygginguna við BUGL. Það er því verið að setja viðbótarfé í málaflokkinn til að við getum tekið á þessum vanda.

Það er ekki búið að stinga neinu undir stól. Engum skýrslum hefur verið stungið undir stól. Aðgerðaáætlunin sem ég byggði á og er að koma fram með byggir á skýrslunum öllum, bæði eldri og nýrri skýrslum.

Ég fagna því hversu jákvæðir langflestir þingmenn hafa verið í garð aðgerðaáætlunarinnar. Hún er að mínu mati mjög góð. En það er rétt að hún tekur, eins og ég sagði í upphafi, á brýnasta vandanum. Hún tekur ekki á öllu til enda. Það er ekki raunhæft að hún geri það eins og staðan er núna. Hún tekur á brýnasta vandanum og við forgangsröðum svo við náum árangri hratt.

Þess vegna einbeitum við okkur að barna- og unglingageðdeildinni, að létta á henni með því að styrkja Miðstöð heilsuverndar barna og styrkja heilsugæsluna almennt bæði á höfuðborgarsvæðinu og líka úti á landi. (Gripið fram í: Hvenær?) Þetta er allt að fara í gang. Við munum sjá þetta allt á næstu vikum og missirum. Fjármagn er tryggt. Menn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þegar menn munu ýta á grænu takkana í fjárlagagerðinni þá er endanlega verið að staðfesta það.

Ég vil benda á að við erum að efla nærþjónustuna úti á landsbyggðinni líka. Til stendur að styrkja sérstaklega þrjár heilsugæslustöðvar með farþjónustu svo þær geti ráðið sérfræðinga til sín. Þessir staðir eru Ísafjörður, Austurland og Suðausturland. Þar verður gert sérstakt átak. En ég tek undir það sem fram hefur komið, að efla þarf samráð milli ráðuneyta og ég vil vera þar í fararbroddi og mun einbeita mér að því.