133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:44]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að velta því fyrir sér hvað valdi ofsaakstri á íslenskum vegum, hver sé rót þessa vanda. Því þótt einstaklingar eigi í hlut er hér um samfélagsvanda að ræða.

Við erum oftast að tala um kornunga karlmenn á aldrinum 17 til 20 ára, kannski 17 til 25, sem ástunda áhættuhegðun í allt of kraftmiklum bílum og valda tjóni, stundum slysum, og eru í raun ógnvaldar í umferðinni.

Hvað veldur þessu taumleysi eða sturlun eins og einn félagi minn í Samfylkingunni nefndi þetta á félagsfundi um daginn? Hvað er að gerast? Við vitum að það eru allt of margir bílar á vegunum. Við vitum líka að sinna þarf umferðaröryggi miklu betur og hafa það sem leiðarljós við samgönguáætlanagerð og vegagerð. Við vitum líka að við þurfum að kenna betur. Ökukennslan þarf að vera betri. Það þarf að bjóða fólki upp á símenntun. Koma þarf á fót og reisa æfingarbrautina sem búið er að tala um síðan ég tók ökuprófið mitt fyrir um 25 árum og það þarf að gera fólki kleift að aka við ólíkar aðstæður.

Á tímum hlýnandi veðurfars þarf að kenna fólki að keyra í hálku og snjó. Það gerist ekki oft hér á suðvesturhorninu, alla vega ekki síðustu missirin. Og foreldrar þurfa að taka hlutverk sitt alvarlega. Þeir eiga ekki að afhenda börnum sínum og unglingum bíla til afnota um leið og þau fá ökuskírteinið.

Við eigum að herða viðurlögin. Ég er yfirleitt á móti hertum viðurlögum en í þessum málaflokki vil ég að við tökum fast á fólki. Ég vil helst að við tekjutengjum sektargreiðslurnar. Kannski ekki við tekjur fólks, kannski við virði bílanna sem þeir aka og við stöndum þannig að verki (Forseti hringir.) að menn finni fyrir því þegar þeir ástunda þá glæpsamlegu hegðun sem ofsaakstur er.