133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum öll sammála um að fórnirnar í umferðinni séu orðnar of miklar. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum úrræði strax, að umferðaröryggisáætlunin sem við keyrum eftir sé of seinvirk. Við getum lagað vegina okkar smám saman en við þurfum úrræði strax.

Hvernig eigum við að sjá til þess að þeir ökumenn sem hæstv. ráðherra nefnir, sem keyra á yfir 150 km hraða og eru mældir í þessum umferðargreinum Vegagerðarinnar, snúi frá villu síns vegar? Í mínum huga er úrræðið eitt og aðeins eitt: Aukum löggæslu. Ég segi fullum fetum að áherslan í löggæslumálum sé röng. Við sendum hraustustu og fílefldustu karlmennina okkar í lögreglunni upp í Hvalfjörð um daginn til þess að æfa einhverja aðgerð gegn hryðjuverkum, til að gera sprengju óvirka. Ég spyr: Hversu margir hafa dáið á Íslandi vegna hryðjuverka? Hversu margir á Íslandi hafa dáið vegna mótmæla á hálendi Íslands?

Sú áhersla er auðvitað ekki eðlileg, frú forseti, að 55–60 manns í löggæslu á Íslandi skuli starfa núna í greiningardeildum á vegum lögregluyfirvalda. Áherslan á að vera á umferðina. Við eigum að fjölga löggæslumönnum á vegum úti. Það er búið að lama svo til umferðarlögregluna í Reykjavík. Sú deild hefur minnkað verulega. Við vitum að úti um land eru engir sérbúnir bílar í umferðareftirliti að staðaldri. Þarna eigum við að grípa til aðgerða.

Mín hvatning er sú til hæstv. ráðherra að leita þessara úrræða strax. Við þurfum að endurreisa umferðareftirlit lögreglu. Vegina getum við síðan lagað smátt og smátt samkvæmt umferðaröryggisáætlun. En aukum löggæsluna á vegunum núna.