133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:50]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ofsaakstur er dauðans alvara. Okkur er öllum brugðið við nánast daglegar fréttir um skelfilegt kæruleysi ökumanna sem leggja líf sitt og okkar allra í hættu. Það er ólíðandi ástand fyrir okkur hin og nógar eru nú samt áhyggjurnar í umferðinni.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þá staðreynd að hér er þjóðvegakerfi sem að hluta ræður ekki við þann hámarkshraða sem hér er leyfður lögum samkvæmt. Ég gæti talið upp vegarkafla til dæmis eingöngu á hringveginum þar sem Vegagerðin hefur sett upp merkingar um viðmiðunarökuhraða miðað við aðstæður. Þetta er óviðunandi og enn hræðilegra að er fólk skuli aka slíka vegi með þeim hætti sem hér er um rætt.

Á meðan ríkissjóður er nánast skuldlaus ætti það að vera markmið okkar að setja enn meira fjármagn í vegakerfið og á það jafnt við höfuðborgarsvæðið sem og landsbyggðina. Það eitt og sér mun ekki koma í veg yfir ofsaakstur. En það eykur hins vegar á öryggi á þjóðvegum og það út af fyrir sig er nægileg ástæða.

Ég velti fyrir mér hugarheimi þeirra ökumanna sem hlut eiga að máli. Er þetta birtingarmynd einhvers konar firringar í okkar samfélagi? Umræða sem þessi er af hinu góða. En hún ein og sér mun ekki skipta sköpum. Við verðum að grípa til sameiginlegra aðgerða til að tryggja öryggi okkar og fjölskyldna okkar á vegum úti.