133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:54]
Hlusta

Sigurrós Þorgrímsdóttir (S):

Frú forseti. Hér eru til umræðu aðgerðir vegna hraðaksturs og ber að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli.

Eins og fram hefur komið eru nú þegar 22 einstaklingar látnir vegna umferðarslysa sem rekja má að einhverju leyti til beins hraðaksturs. Þá eru ónefndir þeir sem lenda í bílslysum og verða örkumla allt sitt líf. Nýlokið er undirskriftasöfnun stopp.is sem er hluti af herferð um bætta hegðun í umferðinni, Nú segjum við stopp, sem Umferðarstofa hefur staðið fyrir ásamt samgönguráðuneytinu. Á þeim mánuði sem söfnunin stóð yfir skrifuðu yfir 37 þúsund Íslendingar undir áheitið um bætta hegðun í umferðinni. Þetta sýnir svo ekki verður um villst vilja fólks í landinu til þess að gert verði eitthvað róttækt til að bæta umferðarmenningu hér á landi og ekki síst koma í veg fyrir hraðakstur. Það er lífsnauðsynlegt að stöðva hraðakstur eða ofsaakstur eins og ég hef kallað það þegar ungir menn aka á 150–200 km hraða hér innan bæjar eins og í Ártúnsbrekkunni. Því miður virðast þessir ökumenn sem leika sér að því að aka langt yfir hámarkshraða vera ungir karlmenn.

Eins og fram hefur komið eru til ýmis úrræði sem verður að grípa til. Það hefur verið nefnt hér að hækka sektir en ég er sammála því sem hér hefur verið rætt að það væri kannski áhrifameira að taka af þeim ökutækin eða svipta þá ökuleyfi. (ÖS: Setja þá í gapastokk.) (Gripið fram í.)

Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að það er verið að vinna í þessu og ég vænti þess að innan tíðar verði komnar fram skýrari reglur sem hafa meiri áhrif.