133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Eins og ástandið er á þjóðvegum okkar er alveg ljóst að við verðum bæði að efla löggæsluna og ekki síður auka fræðsluna um þær hættur sem fylgja þeirri umferð sem núna er á þjóðvegum landsins.

Reykjanesbrautin er tvær akreinar aðskildar í báðar áttir. Til þess fordæmis eigum við að líta varðandi helstu umferðaræðar hér. Þannig lausnir eigum við að skoða í framtíðinni varðandi þær leiðir þar sem umferð er þyngst.

Við erum mikil akstursþjóð, Íslendingar. Við notum mikið þjóðvegina til allra hluta. Núna eru allir þungaflutningar meðal annars komnir á þjóðvegina þó að þjóðvegirnir eins og þeir eru víða um landið séu varla burðugir til þess að hægt sé að flytja þar um með sómasamlegum hætti allar vörur. Margt þarf því að athuga í þessum málum. Ég held að fræðsla og aukin löggæsla sé nauðsynleg eins og ástandið er. Síðan eigum við auðvitað til framtíðar að horfa til þess að búa til betri vegi. Við eigum að reyna að stytta vegalengdir. Við eigum að taka upp sem víðast aðskildar akstursleiðir svo framarlega sem hægt er að koma því við. Við eigum að horfa til láglendisvega. Við eigum að horfa til þess að gera fleiri jarðgöng til að losna við hættulega vegarkafla og fjallvegi. Það hefur sýnt sig að jarðgöngin hafa aukið mikið umferðaröryggi hér á landi. Það hljóta allir að minnast slysanna í Hvalfirði sem voru nánast ársviss og sem betur fer hafa ekki verið undanfarin ár eftir að Hvalfjarðargöng komu til sögunnar. Sama má segja um reynsluna af Vestfjarðagöngum.

Mikil og nauðsynleg verk eru því fram undan og við (Forseti hringir.) getum ekkert annað en sett aukið fjármagn í það að efla vegakerfið og við verðum að gera það markvisst en ekki bara á kosningaári.