133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:12]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og margoft hefur komið fram er þetta frumvarp að mínu mati afsprengi þess eða hluti af því frumvarpi sem við höfum rætt varðandi Ríkisútvarpið ohf.

Varðandi þátttöku Seltjarnarnesbæjar er, eins og ég talaði um og kom inn á í minni framsöguræðu, ekki sambærilegt að ræða það að fella niður þátttöku Seltjarnarnesbæjar og það að fella niður þátttöku eða breyta fyrirkomulagi eða aðkomu Reykjavíkurborgar að Sinfóníuhljómsveitinni. Það er alveg ljóst. Við vitum að töluverður ágreiningur var meðal fulltrúa fyrrverandi meiri hluta í Reykjavíkurborg. Ef mig minnir rétt undirstrikaði einmitt fulltrúi Vinstri grænna hve mikilvægt væri að Reykjavíkurborg kæmi á markvissan hátt að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar meðan fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu aðrar skoðanir. Þetta er miklu stærra mál en svo að við förum í gagngera endurskipulagningu á greiðslufyrirkomulagi til Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ég tel persónulega, og þess vegna meðal annars kemur það fram í þessu, að Reykjavíkurborg sem höfuðborg landsins, sem skiptir mjög miklu máli varðandi miðlun menningar og menningararfs, (Gripið fram í.) komi að þessu. (Gripið fram í: Hlustar þú á ...?) Þess vegna er mikilvægt að hún sé áfram hérna inni. Það er mikið og gott samráð haft við Reykjavíkurborg um málefni hljómsveitarinnar, um tónlistar- og ráðstefnuhúsið, um listahátíð (Gripið fram í.) þar sem við höfum rætt þetta. Varðandi þetta tiltekna mál, ágæti hv. þingmaður Mörður Árnason, þá er rétt að í tengslum við þetta frumvarp hefur ekki verið rætt sérstaklega við Reykjavíkurborg enda er málið mun stærra ef það á að fara að endurskipuleggja greiðsluaðkomu Reykjavíkurborgar að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar.