133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan hafa orðið ákveðnar breytingar á frumvarpinu frá því sem það var þegar það var lagt fram hér í fyrra og við ræddum það í hv. menntamálanefnd. Þetta eru ekki veigamiklar breytingar. Í fyrsta lagi er það 3. gr. sem varðar stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar, þ.e. að Ríkisútvarpið hafi ekki lengur rétt til að skipa fulltrúa í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitarinnar og svo er það d-liður 1. gr. sem varðar það að Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið eigi að gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar.

Athugasemdir um bæði þessi atriði komu til okkar nefndarmanna frá Sinfóníuhljómsveitinni á síðasta ári og við könnuðum þessi mál afar vel í menntamálanefnd og sáum að þarna voru ákveðnar fallgryfjur í uppsiglingu sem hæstv. ráðherra hefur greinilega ákveðið að girða fyrir. Er það auðvitað vel svo langt sem það nær. Í grunninn eru hins vegar hættur hér á ferðinni sem ég tel alveg rétt að fara aðeins í og vara við.

Ég hefði haldið og mín sjónarmið hafa verið þau að tengsl Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins séu mjög mikilvæg. að verulegu máli skipti að halda þeim tengslum opnum og skapandi og dínamískum vegna þess að Sinfóníuhljómsveitin þarf að svo mörgu leyti að reiða sig á Ríkisútvarpið eins og hún hefur gert hingað til og Ríkisútvarpið á Sinfóníuhljómsveitina. Ég álít að við höfum ákveðnum menningarlegum skyldum að gegna við Sinfóníuhljómsveitina. Við þurfum að tryggja Sinfóníuhljómsveitinni að hún hafi verkefni við hæfi og að hún hafi möguleika á að starfa og að við leggjum talsvert á okkur við það að Sinfóníuhljómsveitin geti fengið þau starfsskilyrði að sómi verði að fyrir menningarþjóð á borð við okkur Íslendinga. Mér finnst að það sé í hættu með þessum sambandsslitum á milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins.

Auðvitað tengist sá ótti minn því að ég tel að hér sé verið að fara fram með hætti sem skapar okkur í raun óviðunandi ástand hvað varðar áframhaldandi rekstur Ríkisútvarpsins þar sem hæstv. ráðherra heldur sig við það að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í hlutafélag. Hluti af þeirri gagnrýni sem við höfum haft hér fram að færa, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er þannig vaxinn að við teljum að Ríkisútvarpið eigi að vera þjóðarútvarp í þjóðareigu. Það sama á auðvitað um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Við höfum talið mikilvægt að Sinfóníuhljómsveitin standi styrkum fótum í okkar menningarsamfélagi og teljum að það geri hún best með öflugum tengslum við Ríkisútvarp og hættan sem er til staðar hér á því að Ríkisútvarpinu verði gert að starfa eingöngu samkvæmt markaðslögmálum meira eða minna geri það að verkum að Sinfóníuhljómsveitin gæti átt erfiðara uppdráttar og það verði erfitt að tryggja að efni frá sveitinni fáist flutt í Ríkisútvarpinu.

Ég hef svo sem fjallað um málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar á ýmsum vettvangi, meðal annars átti ég sæti í nefnd sem endurskoðaði leiklistarlög á sínum tíma. Árin 1994 og 1995 setti þáverandi menntamálaráðherra á laggirnar nefnd sem gert var að endurskoða leiklistarlögin og eitt af því sem sú nefnd fjallaði um var einmitt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þar veltum við fyrir okkur vinnuskyldu Sinfóníuhljómsveitarinnar í leikhúsunum og þeim möguleika sem við hefðum á því að efla Sinfóníuhljómsveitina enn frekar með því að tryggja leikhúsunum aðgang að sveitinni. Það hefði mögulega getað gert það að verkum að stöðugildum innan hennar hefði fjölgað, verkefnum hennar hefði fjölgað eða að það hefði breikkað grunnurinn undir starfssvið sveitarinnar ef hún hefði haft ákveðna vinnuskyldu hjá Íslensku óperunni og varðandi óperuflutning í Þjóðleikhúsinu. Nú breyttust leiklistarlögin reyndar á annan veg en sú nefnd sem ég starfaði í óskaði eftir og við töldum að gæti verið til hagsbóta bæði fyrir leiklistina og Sinfóníuhljómsveitina þannig að þær hugmyndir eru kannski ekki alveg uppi á borðinu núna. Það breytir því ekki að við eigum að standa vörð um möguleika Sinfóníuhljómsveitarinnar á að starfa og blómstra en það sýnist mér hæstv. menntamálaráðherra ekki gera á nægilega sannfærandi hátt með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þá er ég bæði að fjalla um breytingarnar á lögunum um Ríkisútvarpið og sömuleiðis breytingarnar á lögunum um Sinfóníuhljómsveitina.

Varðandi síðan það atriði sem við hæstv. menntamálaráðherra ræddum í andsvari rétt áðan þá er alveg ljóst að málefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa verið á borðum Reykjavíkurborgar á síðustu missirum. Nú er mér ekki kunnugt um hvort nýr meiri hluti í Reykjavík hefur tekið málefni sveitarinnar til umfjöllunar, en af því hefur í öllu falli ekki heyrst í fjölmiðlum. Hitt er ljóst að fulltrúi Reykjavíkurborgar sem heimsótti menntamálanefnd þann 24. mars síðastliðinn þegar verið var að fjalla um þetta mál — sá fulltrúi var Stefán Jón Hafstein, þáverandi formaður menningarmálanefndar Reykjavíkurborgar, — sagði það alveg fullum fetum að Reykjavíkurborg teldi það hluta af sinni skyldu að fjármagna sveitina og rökin eru að hluta til þau sem hæstv. menntamálaráðherra færði fram áðan. Reykjavíkurborg er jú höfuðborg. Það breytir því ekki að fleiri sveitarfélög eru á höfuðborgarsvæðinu og þau ættu eðli málsins samkvæmt að hafa skyldum að gegna gagnvart sveitinni. Hvers vegna? Jú, vegna þess að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eiga greiðari aðgang að tónleikum sveitarinnar eðli málsins samkvæmt en þeir sem fjær búa. Að því leytinu til er því nauðsynlegt að sveitarfélögin og ríkisvaldið taki upp umræður um það hvernig þjóðin eigi að finna fyrir því að hún eigi öfluga og kraftmikla sinfóníuhljómsveit.

Ég hefði haldið líka að í ljósi breyttra aðstæðna hér í samgöngum hefði verið hægt að víkka umræðuna um þetta út til Stór-Árborgarsvæðisins, eins og þeir segja fyrir austan, eða Stór-Borgarnessvæðisins, eins og þeir segja fyrir vestan, því að við erum að horfa á það í auknum mæli að atvinnusvæði höfuðborgarinnar er að stækka. Það stækkar í áttina að Borgarnesi og austur að Árborg þannig að við hefðum í sjálfu sér, ef við ætluðum að vera verulega metnaðarfull, átt að skoða þessa hluti ofan í kjölinn. Við hefðum átt að efna til samræðu við öll sveitarfélögin á þessu svæði og hæstv. menntamálaráðherra er lykilmanneskja í þeim efnum. Hæstv. menntamálaráðherra hefði átt að beita sér fyrir því í hléinu sem við höfðum í umfjöllun um þessi mál í sumar að efna til viðræðu við þessi sveitarfélög til þess að tryggja öflugan rekstrargrundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Svo kemur reyndar inn í þetta líka samstarf Sinfóníuhljómsveitarinnar hér við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Í sjálfu sér held ég að það hafi alveg verið full efni til að ræða það á breiðum grunni. Ég tel og ítreka að það hefði átt að vera í verkahring hæstv. menntamálaráðherra að gera það og gangast fyrir slíkum umræðum.

Samkvæmt umsögn Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem kom til menntamálanefndarinnar á síðasta vetri eða síðasta vor, þá taldi starfsmannafélagið að ýmsir lausir endar væru í þessum málum og taldi að mörg atriði væru óskýr um það hvað hæstv. menntamálaráðherra sæi fyrir sér í þeim samningi sem starfsmannafélagið taldi nauðsynlegt að gerður yrði milli sveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Maður spyr sig til dæmis: Hvað ef útvarpsstjóri sem samkvæmt lögunum um Ríkisútvarpið verður afar valdamikil persóna, hvað ef einhver útvarpsstjóri verður nú alls ekki áhugasamur um Sinfóníuhljómsveitina eða um tónlist Sinfóníuhljómsveitarinnar? Verður það þá í hans verkahring á einhvern hátt eða gæti það orðið í hans verkahring að stjórna því á hvern hátt Sinfónían kæmist að í Ríkisútvarpinu? Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að svara spurningum á borð við þessa.

Starfsmannafélagið taldi líka nauðsynlegt — og ég kannski kalla þá eftir því úr því að hæstv. ráðherra hefur lagt það hér til að Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið eigi að gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar — þá er kannski nauðsynlegt að það sé sagt örlítið meira í þeim efnum þar sem ólík sjónarmið gætu ráðið hjá Ríkisútvarpinu og hjá sveitinni. Mér finnst vanta þarna einhvers konar „mandat“ eða einhvers konar vegvísi frá stjórnvöldum, frá hæstv. menntamálaráðherra um það hvað ráðherrann sjálf sér í þessum efnum því að mér finnst það ekki liggja ljóst fyrir að Sinfóníuhljómsveitin eigi jafngreiðan aðgang að Ríkisútvarpinu og verið hefur með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar benti á ákveðið misræmi í lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem varðaði orðalag b-liðar 1. mgr. 3. gr. um framlag útvarpsins sem félli brott. Sinfóníuhljómsveitin óskaði þar eftir ákveðnum skýringum sem ég sé ekki að þetta nýja frumvarp eða þetta endurnýjaða frumvarp leysi úr. Svo hófst reyndar líka í menntamálanefnd um þetta leyti umræða um hljóðfæraeign Sinfóníuhljómsveitarinnar. Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar sagði okkur í bréfi sem nefndinni var sent að það teldi rétt að hljóðfæri sem keypt hefðu verið til notkunar í Sinfóníuhljómsveit Íslands en væru eign Ríkisútvarpsins kæmu í hlut Sinfóníuhljómsveitar Íslands með þessum breytingum þegar þessi lagalegu tengsl stofnananna yrðu rofin. Hæstv. menntamálaráðherra nefndi það ekkert í flutningsræðu sinni hvort einhver breyting yrði hér gerð á. En það væri fengur að því að fá frekari sjónarmið í þeim efnum fram nú í umræðunni.

Það hefur ekki verið orðið við hugmynd starfsmannafélagsins sem taldi nauðsynlegt að listrænum sjónarmiðum yrði gert hærra undir höfði í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Starfsmannafélagið talaði um að með því mundi skerpast listræn stefnumótun hljómsveitarinnar og að stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands mundi þá veita hljóðfæraleikurum og öðru starfsfólki Sinfóníuhljómsveitarinnar nauðsynlegan stuðning til listrænna afreka. Í þessu sambandi benti starfsmannafélagið á hvernig skipað væri í þjóðleikhúsráð og gerði að tillögu sinni að Félag íslenskra hljómlistarmanna fengi tækifæri til þess að skipa fulltrúa í verkefnavalsnefnd sveitarinnar. En við því hefur heldur ekki verið orðið þó ekki séu sýnileg rök gegn því að verða við þeim tilmælum starfsmannafélagsins.

Hæstv. forseti. Í grunninn lít ég svo á að Sinfóníuhljómsveit Íslands eigi það inni hjá okkur alþingismönnum að við förum nákvæmar í málefni sveitarinnar en mér sýnist vera ætlunin hér. Nú tek ég það raunar fram að við eigum eftir að senda málið til umsagnar þeirra aðila sem veittu okkur umsagnir í fyrra og jafnvel einhverra fleiri. Það er komin fram í menntamálanefnd ósk um að Ríkisútvarpsfrumvarpið verði sent út til umsagnar, en ákveðin mótmæli voru nú bókuð við það á fundi nefndarinnar í morgun þar sem hv. formaður nefndarinnar hafði þá ekki í huga að senda það frumvarp sem við hér ræðum í sama pósti heldur virtist hann ætla að aðskilja málin og greinilega líka að aðskilja þessi mál frumvarpinu um umhverfi fjölmiðla almennt. Við það gerði ég athugasemd því ég tel mjög mikilvægt að skoða þessi mál heildstætt, málefni Ríkisútvarpsins, málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar og málefni á fjölmiðlamarkaði almennt. Ég vona því að enn sé von í þeim efnum, þ.e. að nefndin geti sent þessi mál samhliða út þannig að við getum fengið umræðuna sem breiðasta í nefndinni.

Hæstv. forseti. Að þessu mæltu geri ég ráð fyrir því að menntamálanefnd eigi eftir að taka hér til umfjöllunar frekar þær breytingar sem gerðar voru á milli þinga á frumvarpinu. Ég lít svo á að hér eigi eftir að verða ákveðin átök á milli sjónarmiða þeirra sem vilja að Sinfóníuhljómsveitin verði áfram sterk og hafi rótföst tengsl við Ríkisútvarpið og hinna sem vilja kannski slíta þessi tengsl, en það hefur fólgnar í sér þær hættur sem ég hef gert grein fyrir í máli mínu.