133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. ráðherra er sammála okkur í því að þessi tengsl eigi að vera sterk. Þá verðum við líka að gera lagaumgerðina þannig úr garði að það sé tryggt. Ég tel svo ekki vera með þeim breytingum sem hæstv. ráðherra ætlar að fara í á Ríkisútvarpinu og um leið á Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hvað varðar kröfu stjórnarandstöðunnar þess efnis að rætt verði heildstætt um fjölmiðlamál á Alþingi Íslendinga þá hefur sú krafa alltaf verið á þann veg að frumvörpin þrjú sem um ræðir verði rædd heildstætt. Að sjálfsögðu ekki öll í einum og sama ræðutímanum, hvert mál fyrir sig á að hafa sérstakan ræðutíma. Annað væri fullkomlega óeðlilegt. Við gerðum þá kröfu, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hin almennu mál, almennt umhverfi fjölmiðla, yrðu rædd fyrst sem er eðlilegt. Síðan gætum við rætt sérlögin, Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og okkar mál sem hefur verið lagt fram, þ.e. mál Ríkisútvarpsins. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ævinlega lagt það mál fram á sama tíma og hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram hugmyndir sínar til breytinga. Það er því krafa okkar að málin fari öll á sama tíma til umsagnar, þ.e. mál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, málið um Ríkisútvarpið, málið um Sinfóníuhljómsveitina og síðast en ekki síst málefni fjölmiðla almennt. Umsagnaraðilar eiga ekki að fá þessar beiðnir í fjórum mismunandi umslögum eins og nefndin geri ráð fyrir að umsagnaraðilar gefi fjórar ólíkar umsagnir. Það er mergurinn málsins að við óskum eftir umsögnum um þetta heildstætt frá þeim aðilum úti í bæ sem við krefjum um umsagnir.