133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum ræða hlutina eins og þeir eru. Það var alveg ljóst að stjórnarandstaðan ætlaði að reyna að stoppa bæði þetta og Ríkisútvarpið ohf., neitaði að ræða það saman. Það er vitað mál að það frumvarp sem við erum að ræða núna — og ég bið hv. þingmenn að sýna sanngirni — hefði ekki komið fram nema af því að við erum að ræða Ríkisútvarpið ohf. Því var eðlilegt að fara fram á að þessi tvö mál að minnsta kosti yrðu rædd saman en því hafnaði stjórnarandstaðan. Ef hún segir A getur hún ekki sleppt því að segja B eins og margir hafa rætt um. Því er afar eðlilegt að menn velti þeim möguleika fyrir sér að þau verði send út hvort í sínu lagi.

Ég skil að stjórnarandstaðan hafi sömu sjónarmið og ég hvað það varðar að þessi mál hangi saman. En við vitum náttúrlega varðandi fjölmiðlaumræðuna sem slíka (Gripið fram í.) að þess var alltaf krafist að ræða þessi mál saman. Það var aldrei talað um að ræða þetta í aðskildum ræðutímum. Það var alltaf talað um að ræða þessi mál saman.

Síðan voru önnur atriði sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan, m.a. aðkoma Reykjavíkurborgar. Ég tel mig hafa farið nokkuð ítarlega yfir það í ræðu minni. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg og ríkið komi saman að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég tel ekki sjálfgefið að bæirnir í kringum Reykjavík, hvort sem það er kraginn, Selfoss eða Árborg og Borgarnes, komi sjálfkrafa inn í reksturinn. Þessir bæir koma t.d. ekki að rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins. Hvernig verður framtíðin varðandi umhverfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands? Það verður náttúrlega glæsilegt með tilkomu tónlistar- og ráðstefnuhússins. En það eru ríkið og Reykjavíkurborg sem eru að byggja það upp saman. Ég tel því mikilvægt að þeir tveir aðilar hafi líka og beri ábyrgð á því að reka Sinfóníuhljómsveitina.