133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki frekar en hv. þingmaður að dvelja lengur við það hvort ræða eigi málin saman. Það er a.m.k. ljóst að þegar tækifæri gafst, þegar stjórnarandstaðan var búin að tala um það á tveimur þingum að ræða þyrfti málin saman, og loksins þegar tækifærið gafst að ræða málin öll saman þverskallaðist stjórnarandstaðan við það. (Gripið fram í.) Það var allan tímann ljóst af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún vildi ræða Ríkisútvarpið, hún vildi ræða Sinfóníuna og hún vildi ræða fjölmiðlafrumvarpið saman. Loksins þegar færi gafst gaf stjórnarandstaðan eftir, kiknaði í hnjáliðunum.

Síðan komum við að spurningu hv. þingmanns og ég segi eins og er: Það verður að líta til þingsögunnar um hvernig svona mál eru afgreidd. Ég tel það ekki sjálfkrafa og eðlilegt að öll þessi mál séu afgreidd saman, enda ber allt að sama brunni. Það sem má ekki segja héðan beint úr þingsalnum þegar menn koma fram með svona tillögur, hvað eru menn að gera þá? Þá eru menn ekkert annað að gera en að reyna að tefja framgöngu mála. Og ég segi sem flutningsmaður þriggja þessara mála: Að sjálfsögðu vil ég að mín mál komist áfram. Ég berst fyrir þeim alveg eins og hv. þingmaður og þingflokksformaður Vinstri grænna berst fyrir framgangi sinna mála á þingi og það eru lýðræðislegar reglur sem gilda um það hvernig málin koma fram. Á þeim er tekið í forsætisnefnd o.s.frv. Ég vil undirstrika það.

Síðan vil ég sérstaklega hnykkja á því að það er rangt sem hv. þingmaður kom inn á áðan í ræðu sinni. Við erum þó sammála um að báðar stofnanirnar, Ríkisútvarpið og Sinfónían, eru mikilvægar menningarstoðir í samfélaginu. Ég hef aldrei litið svo á að Sinfónían sé baggi á Ríkisútvarpinu. Ég lít hins vegar ekki þannig á að frumforsendan fyrir því að Sinfónían vaxi og dafni séu lagaákvæði til að binda og hnýta Ríkisútvarpið og hana saman. Ég hef trú á hlutafélagsforminu. Ég hef trú á því, eins og ég gat um í ræðu minni, (Forseti hringir.) að tengslin á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar, herra forseti, muni eflast ef eitthvað er.