133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frumvarp þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs byggir á mikilli vinnu, á sér langar rætur og hefur fengið mjög góðan hljómgrunn hjá þeim sem um málið hafa fjallað, hvort sem það eru starfsmenn, hollvinasamtök eða aðrir. Að bera það á borð nú að það frumvarp sé sett fram einvörðungu til að tefja fyrir máli ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið er náttúrlega ekki boðlegt.

Ég spurði einnar einfaldrar spurningar, hvort ríkisstjórninni þætti það vera sanngjarnt að mál sem snúast um sama hlutinn frá stjórn og stjórnarandstöðu fái ekki að koma saman til umfjöllunar í menntamálanefnd og fara saman út til umsagnar þannig að þeir sem fá málin til umsagnar sjái hvaða valkost er um að tefla, hvort þetta sé ekki sanngjarnt.

Þetta eru svörin sem við fáum. Ég ætla einfaldlega að láta hlustendum það eftir að dæma hver fyrir sig, hvað er sanngjarnt í þessu efni og ætla ég ekki að hafa frekari orð um það að sinni.