133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

flutningur verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta.

186. mál
[14:11]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Í tengslum við þá nýskipan lögreglumála sem samþykkt hefur verið og taka mun gildi 1. janúar næstkomandi, samanber lög um breytingu á lögreglulögum, nr. 46/2006, ákvað ég að finna leiðir til að efla og styrkja sýslumannsembættin utan höfuðborgarsvæðisins með flutningi verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til embættanna.

Farið var yfir hvaða verkefni ættu heima hjá ráðuneytinu sem æðra stjórnvaldi og hvaða verkefni væru til þess fallin að þau yrðu færð til stofnana ráðuneytisins. Niðurstöðuna má finna í frumvarpi því sem hér er til meðferðar.

Þegar hafa verið flutt nokkur verkefni. Í fyrsta lagi hefur umsýsla vegna bótanefndar verið flutt til sýslumannsembættisins á Siglufirði en til þess þurfti ekki lagabreytingu. Í öðru lagi hefur innheimta sekta og sakarkostnaðar á milli Norðurlandanna, sem áður var á hendi ráðuneytisins, verið flutt til Innheimtumiðstöðvar sekta- og sakarkostnaðar á Blönduósi, samanber lög nr. 70/2006, sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum um breytingu á lögum um fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Í þriðja lagi hefur verið hafinn undirbúningur að því að sýslumaðurinn í Vík annist útgáfu Lögbirtingablaðs á vegum ráðuneytisins frá og með næstu áramótum eða jafnvel fyrr. Í frumvarpi þessu er síðan gert ráð fyrir lagabreytingu þess efnis að útgáfan geti alfarið verið á vegum sýslumannsembættis.

Virðulegi forseti. Áður en ég vík að einstökum verkefnum sem gert er ráð fyrir að flytjist til sýslumannsembættanna vil ég nefna að lögð er til veigamikil breyting varðandi úrræði aðila máls til að fá stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða. Almennt eru ákvarðanir lægra setts stjórnvalds kæranlegar til æðra stjórnvalds. Ákvarðanir sýslumanna í þeim málum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þeim verði falin verða því samkvæmt almennum reglum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins og til að taka af allan vafa verður mælt fyrir um það sérstaklega í lagatextanum.

Er þetta fyrirkomulag um tvö stjórnsýslustig í samræmi við þau meginviðhorf í stjórnsýslurétti að aðili stjórnsýslumáls geti fengið stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða hjá öðru stjórnvaldi en því sem ákvörðunina tók. Eðli máls samkvæmt sæta þau mál sem ráðuneytið tekur nú ákvarðanir í ekki endurskoðun annars stjórnvalds. Flutningur verkefna til sýslumanna og kæruheimildir ráðuneytisins stuðlar þannig að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Um stjórnsýslukærur, svo sem um kærufrest og fleira, fer samkvæmt stjórnsýslulögum nema lög kveði á um annað.

Þá er rétt að nefna að vegna smæðar sumra sýslumannsembætta og takmarkaðs málafjölda í sumum málaflokkum er nauðsynlegt að dóms- og kirkjumálaráðherra geti falið einum sýslumanni að annast tiltekinn málaflokk. Er það fyrirkomulag því almennt lagt til í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagt til að eftirfarandi verkefni verði flutt til sýslumanna:

Í fyrsta lagi staðfesting skipulagsskráa fyrir sjóði og sjálfseignarstofnanir, samanber ákvæði I. kafla frumvarpsins.

Í öðru lagi að halda allsherjarskrá um skráða kaupmála, samanber II. kafla frumvarpsins.

Í þriðja lagi veiting leyfis til að reka útfararþjónustu, samanber III. kafla frumvarpsins. Þeir einir mega reka útfararþjónustu sem hafa leyfi frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Nánari reglur um leyfisveitinguna er að finna í reglugerð þar sem kveðið er á um umsóknir um leyfi, skilyrði og fleira. Lagt er til að leyfisveitingar þessar verði fluttar til sýslumanna. Æskilegt er að þær verði á hendi eins sýslumannsembættis og gerir frumvarpið því ráð fyrir heimild ráðherra til að ákveða að þær verði á hendi eins sýslumanns á landsvísu.

Í fjórða lagi veiting ættleiðingarleyfis og forsamþykkis, samanber VI. kafla frumvarpsins. Ættleiðingarmálum hefur fjölgað talsvert hin síðari ár. Á árinu 2005 voru stjúpættleiðingar 28. Ættleiðingar íslenskra fósturbarna 7 og ættleiðingar erlendra barna 39. Vinnsla þessara mála er alfarið skrifleg ef undan er skilin staðfesting á samþykki ásamt leiðbeiningum um réttaráhrif hennar en slíkrar staðfestingar hefur um árabil mátt leita hvort sem er hjá dómsmálaráðuneytinu eða sýslumönnum. Fer vel á því að þessari stjórnsýslu sé sinnt utan höfuðborgarsvæðisins. Málaflokkurinn fellur vel að þeim verkefnum sem sýslumenn fara þegar með en þeir hafa með höndum margvísleg sifjamál. Mikilvægt er hins vegar að þessi mál séu á einni hendi vegna þess að hve sérhæfð þau eru og vegna takmarkaðs málafjölda. Er því lagt til að dómsmálaráðherra geti valið einum sýslumanni leyfisveitingar.

Í fimmta lagi að sýslumönnum verði falin löggilding dómtúlka og skjalaþýðenda, samanber VII. kafla frumvarpsins.

Í sjötta lagi að sýslumaður hafi með höndum löggildingu fasteignasala, samanber VIII. kafla frumvarpsins. Með lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, sem gildi tóku 1. október 2004, var eftirlit með starfsemi fasteignasala flutt úr ráðuneytinu til sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar, eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með því að fasteignasalar starfi í samræmi við fyrirmæli laganna, siðareglur Félags fasteignasala og góðar venjur í fasteignasölu. Reglubundið eftirlit með fasteignasölum er því ekki lengur í ráðuneytinu og hefur reynslan af fyrirkomulagi þessu almennt þótt góð.

Í sjöunda lagi verði útgáfa Lögbirtingablaðs á hendi eins sýslumanns, eins og ég nefndi hér í upphafi, samanber IX. kafla frumvarpsins.

Loks veitir sýslumaður leyfi til fyrir leyfisskyldum happdrættum í stað dómsmálaráðherra, samanber X. kafla frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.