133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[14:18]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt á þskj. 190 og er mál nr. 189 á þessu þingi.

Frá árinu 1999 hefur farið fram umfangsmikil endurskoðun á stofnlánakerfi landbúnaðarráðuneytisins, m.a. á stöðu og hlutverki rannsókna- og menntastofnana landbúnaðarins. Með lögum nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, var sú breyting gerð að Bændaskólinn á Hvanneyri fékk formlega stöðu háskóla. Með lögum nr. 71/2004, um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, og með lögum nr. 979/2004, um breytingu á lögum um rannsóknastofnanir atvinnuveganna, nr. 64/1965, var síðan stigið annað skref í endurskoðun á stofnlánaskipan landbúnaðarráðuneytisins á sviði rannsókna og fræðslu með sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins í eina stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmiðið með þessum breytingum var að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með það fyrir augum að þær þjóni betur þörfum landbúnaðarins í breyttu starfsumhverfi. Í áliti landbúnaðarnefndar Alþingis um breytingu á lögum sem leiddu til stofnunar Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2004 kemur fram að mikilvægt sé að fara jafnframt yfir stöðu og málefni Hólaskóla.

Hólaskóli hefur á undanförnum árum eflst sem vísindaleg kennslu- og rannsóknastofnun á sviði fiskeldis, hrossaræktar, hestamennsku og ferðamála. Með lögum nr. 71/2004 fékk skólinn formlega heimild til kennslu á háskólastigi og með frumvarpi því sem hér er flutt er lagt til að skrefið verði stigið til fulls og Hólaskóli verði gerður að háskóla er starfi á afmörkuðum sviðum landbúnaðarins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skólinn starfi á þremur afmörkuðum sviðum kennslu og rannsókna, þ.e. á sviði hrossaræktar og hestamennsku, á sviði fiskeldis og á sviði ferðaþjónustu í dreifbýli. Nýjung er að kveðið er á um að við skólann sé heimilt að starfrækja alþjóðlega deild í hestafræðum. Mikil eftirspurn er eftir slíku námi erlendis frá og brýn þörf að efla alþjóðlega þekkingu og þjálfun og meðferð íslenska hestsins. Miðað er við að kennsla fari fram á ensku og meginhluti nemendanna verði erlendir. Lagt er til að heimilt verði að innheimta skólagjöld fyrir slíkt nám.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að gildandi ákvæði um búfræðsluráð verði felld niður. Samkvæmt núgildandi ákvæðum er hlutverk búfræðsluráðs að vera landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um mörkun heildarstefnu í búfræðslumálum og samræmingu starfa þeirra er að þeim vinna. Verði frumvarpið samþykkt verða eftirleiðis tvær rannsókna- og fræðslustofnanir á háskólastigi starfandi á sviði landbúnaðarins sem hvor um sig lýtur stjórn háskólaráðs sem er æðsti ákvörðunaraðili innan skólans og ásamt rektor markar stefnu í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag skólans og samþykkir starfs- og rekstraráætlanir. Það er mat landbúnaðarráðuneytisins að við slíka skipan mála hafi hlutverk búfræðsluráðs færst til háskólaráðanna og sé ráðið því óþarft. Jafnframt er kveðið á um að gæði menntunar sem menntastofnanir landbúnaðarins veita skuli uppfylla skilyrði nýsamþykktra háskólalaga, nr. 63/2006, og laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Nýjung er að frumvarpið gerir ráð fyrir að menntastofnunum landbúnaðarins sé heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem þeim er skylt að veita. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum í 18. gr. laga um Háskóla Íslands.

Stjórn háskólans er falin háskólaráði og rektor. Sem fyrr segir markar háskólaráð stefnu í rannsóknum og kennslu, mótar skipulag skólans og samþykkir starfs- og rekstraráætlanir. Lagt er til að skipan háskólaráðs verði með þeim hætti að í ráðinu eigi sæti auk rektors og fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins, fulltrúar annarra ráðuneyta sem tengjast starfssviði skólans, eða fulltrúar sjávarútvegsráðuneytis og samgönguráðuneytis. Til þess að tryggja tengsl við háskólaumhverfið í landinu er lagt til að í háskólaráði eigi einnig sæti fulltrúi menntamálaráðuneytisins og fulltrúi háskólaráðs Háskóla Íslands. Þá er gert ráð fyrir að Félag tamningamanna og starfsmenn og nemendur skólans tilnefni fulltrúa í háskólaráð. Ákvæði um ráðningu prófessora, dósenta, lektora og stundakennara og kröfur sem gerðar eru um menntun og starfsreynslu slíkra starfsmanna eru hliðstæðar ákvörðunum sem gilda um aðrar háskólastofnanir. Kennsla á vegum Hólaskóla getur verið á háskólastigi og framhaldsskólastigi. Gert er ráð fyrir að störf hjá Hólaskóla verði lögð niður við gildistöku laganna en starfsfólki stofnunarinnar boðin störf hjá Hólaskóla, Háskólanum á Hólum. Ákvæði þetta er hliðstætt þeim ákvæðum sem sett voru í lögin um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2007. Ljóst er að það kallar á nokkra vinnu að undirbúa framkvæmd laganna og því er lagt til að rektor og háskólaráð taki til starfa 1. janúar 2007 til að undirbúa starfsemi hinnar nýju stofnunar. Eðlilegt þykir að nemendur geti haldið áfram námi óháð því að þeir flytjist til nýrrar stofnunar og því er þeim gefinn kostur á því að ljúka núverandi námi samkvæmt gildandi námskrám. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í nýsamþykktum lögum um háskóla, nr. 63/2006, er kveðið á um endurskoðun laga um búnaðarfræðslu fyrir 1. júní 2008 til þess að samræma og auka samvinnu við gæðaeftirlit og námsframboð á háskólastigi.

Hæstv. forseti. Að svo mæltu geri ég það að tillögu minni að lokinni umræðunni verði málinu vísað til hv. landbúnaðarnefndar til meðferðar þar og vonandi afgreiðslu aftur inn í þingið á þessu haustþingi.