133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[13:45]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í andsvarsformi gera smáathugasemd þótt ég sé reyndar fyllilega sammála þessu máli og tel að gera þurfi að úttekt á þeim breytingum sem hafa orðið á rafmagnsverði eftir að gerðar voru breytingar á lögum á Alþingi. Þær lagabreytingar áttu sér stað þegar ég átti sæti í iðnaðarnefnd og þar kom fram að iðnaðarráðuneytið lýsti því yfir að raforkuverðið mundi ekki hækka þó svo að andstæðingar lagasetningarinnar héldu því fram að hún mundi valda verulegri hækkun á rafmagnsverði. Það er því full ástæða til þess að gera úttekt á þessu því að ég held að það hafi verið mistök að breyta þessum lögum. Lagasetningin var miðuð við að við værum í samkeppni um kaup á raforku milli landa eins og er á Norðurlöndunum. Það hefur reyndar sýnt sig, þó að sá háttur sé á að menn geti keypt milli landa þar, að raforkuverð hefur líka hækkað eftir þessa breytingu á lögunum á Norðurlöndum. Þetta hefur því haft hækkun í för með sér þó svo að stjórnvöld hafi haldið því fram að svo yrði ekki.

Ég tek svo einnig undir að reikningarnir eru náttúrlega fáránlega flóknir, eins og hv. þingmaður benti á í framsöguræðu sinni, og því full ástæða til að fara í þessa úttekt. Ég hvet til þess að menn skoði þetta mál gaumgæfilega vegna þess að þær yfirlýsingar sem stjórnvöld höfðu uppi þegar þessi lagabreyting var gerð hafa alls ekki staðist, þær hafa fallið algjörlega um sjálfar sig.