133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

Ríkisútvarpið.

24. mál
[17:56]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær spurningar sem ég vildi beina til hv. þingmanns um leið og ég þakka honum þessa ræðu. Ég tek ekki undir að það sé markvissara eða lýðræðislegra fyrirkomulag að láta einn pínulítinn þingflokk hafa jafnmörg sjónarmið og stærsta þingflokk þjóðarinnar o.s.frv. Ég ætlaði að spyrja hann að því hvernig hann ætlaði að hegða sér með þetta gjald.

Þarna stendur, með leyfi forseta:

„Öllu íbúðar- og atvinnuhúsnæði í landinu fylgir réttur til að nýta þjónustu Ríkisútvarpsins. Gjaldstofn afnotagjalds miðast við íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á.“

Hvað er átt við? Í fyrsta lagi, bílar eiga ekki rétt, þ.e. þeir sem aka um á bílum, eiga þeir ekki rétt? Í öðru lagi: Eiga menn við að hver íbúð eigi að borga eina krónu, eða sem sagt einn gjaldstofn, eða fer þetta eftir flatarmáli, rúmmáli, verðmæti? Eftir hverju fer þetta? Fer þetta eftir íbúafjölda eða hvernig ætla menn að leggja skattinn á íbúðar- og atvinnuhúsnæði? Eitthvað þarf að hafa til viðmiðunar.

Þá kemur hin spurningin sem mér finnst miklu veigameiri. Mér skildist á hv. þingmanni eftir því sem hann las upp að stjórn BSRB, sem eru fjöldasamtök sem í eru sennilega um 20 þúsund félagsmenn alls staðar á landinu, fólk sem kýs alla flokka — væntanlega eru 8 þúsund af þeim sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, svona miðað við 40% af þjóðinni — að þetta fólk allt saman, fulltrúar þess í stjórn BSRB, hafi stutt frumvarp eins þingflokks á Alþingi, og styðji það. Hvert erum við komin í skoðanafrelsinu þegar stór hluti af BSRB-fólki þarf að fjármagna stuðning BSRB við ákveðið frumvarp á þingi sem mjög mikill pólitískur ágreiningur er um? Eða er BSRB bara félag starfsmanna RÚV?