133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar sem lýsa málefnalegum áhuga á þeim merka áfanga sem náðist í dag.

Það sem um er að ræða er að viðræður aðila hafa borið árangur með því að gerður er samningur um það að ríkið kaupi til sín eignarhluti Reykjavíkurborgar sem eru liðug 44% og eignarhluta Akureyrarbæjar sem er liðug 5% í Landsvirkjun.

Fyrirspyrjandi spyr um ábyrgðir. Ég hef skilið það svo að þessi kaup séu með öllu sem tilheyrir þannig að þá sé Landsvirkjun að öllu leyti á vegum ríkisins og þær ábyrgðir sem þar fylgja með. Þannig hef ég skilið þetta.

Fyrirspyrjandi spurði líka um tiltekið samningsákvæði um hugsanlegt endurmat. Ég hef skilið það svo að þarna sé einfaldlega um að ræða samningsákvæði sem algeng eru í viðskiptum með fyrirtæki þar sem lagt er til grundvallar eitthvert tiltekið mat. Þá er alltaf vitað að það er einhver viðskiptaleg óvissa og ef aðrar ákvarðanir eru teknar innan skamms tíma vilja seljendur gjarnan hafa ákvæði af þessu tagi. Ég hef skilið það þannig að hér sé einfaldlega um viðskiptalega niðurstöðu í samningum að ræða. Það liggur ekki fyrir að fyrirtækið verði selt og allra síst einkaaðilum. Það liggur þvert á móti fyrir að við þetta verður látið sitja. Landsvirkjun verður áfram sameignarfyrirtæki í opinberri eigu og við munum reyna að láta orkumarkaðinn þróast áfram á komandi árum án þess að breyting verði á því og það er ekki fyrirsjáanlegt.