133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það ákvæði í samningnum sem við erum að tala um er ekki algengt í samningum sem ríkið stendur að. Það væri t.d. önnur staða á ríkissjóði ef þetta samningsákvæði hefði verið að breyttu breytanda sett inn í sölu bankanna á sínum tíma þar sem verðmæti þeirra hefur á nokkrum árum farið langt fram úr því sem menn létu sér detta í hug þegar bankarnir voru afhentir ýmsum aðilum í samfélaginu. Það að á svona ákvæði sé fallist af hálfu þess sem kaupir getur ekki verið annað en vísbending um að hann telji það mögulegt, hugsanlegt og jafnvel æskilegt að selja þetta fyrirtæki.

Nú eru sjö mánuðir til kosninga, sjö mánuðir eftir fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson að sitja í sínum stóli. Í hvaða krafti fullyrðir hann að málum sé komið þannig að Landsvirkjun verði hér sameignarfélag með einhverjum hætti til eilífðarnóns? Hefur það verið samþykkt í ríkisstjórninni? Liggja fyrir því samningar stjórnarflokkanna? Þessu er eðlilegt að Jón Sigurðsson svari.

Það er líka eðlilegt að ríkisstjórnin í gegnum sinn hæstv. iðnaðarráðherra svari því nú þegar hún hefur keypt Landsvirkjun hvaða hlutverk hún ætlar Landsvirkjun í framtíðinni. Ætlar hún Landsvirkjun það hlutverk að vera yfirgnæfandi fákeppnis- og einokunaraðili í raforkuframleiðslu og raforkudreifingu eða ætlar hún að gera eitthvað annað? Hvernig ætlar hún að fara með þær eigur sem hljóta að teljast almenningseigur? Hvernig ætlar hún að haga markaðssamkeppni á raforkumarkaði, sem við í raun og veru tókum við viljug nauðug á sínum tíma? Ætlar hún virkilega að hafa þetta ákvæði ógilt (Forseti hringir.) í samningnum eða ætlar hún kannski að einkavæða þetta fyrirtæki á næsta

kjörtímabili?