133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þessi samningur um kaup á eignarhlutum er ekki fyrsta skref í einkavæðingu og tengist slíku ferli á engan hátt. Ákvæðið um leiðréttingu kaupverðs tengist að því leyti þeim ábyrgðum sem hv. þingmaður spurði um, að gert er ráð fyrir ákveðnu tímabili til að hreinsa þetta út sem er til 1. janúar 2012.

Ég get ekki á þessu stigi svarað spurningu um tilurð eignarhluta Reykvíkinga en eftir þeim upplýsingum sem ég hafði um Marshall-aðstoðina var ekki gert ráð fyrir að þar yrði breytt eignaraðstæðum á stofnunum og fyrirtækjum. Ekki liggja fyrir á þessu stigi neinar niðurstöður um frekari skipulagsbreytingar sem snerta Rarik eða Orkubú Vestfjarða.

Þessi samningur er einfaldlega til þess að koma í veg fyrir óeðlileg tengsl og hagsmuna- og trúnaðarárekstra á markaði, til þess að gera eignaraðstæður og hagsmuni skýra. Þetta er merkur og mikilvægur áfangi í mótun raforkumarkaðar. Hann er gerður að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykkt Alþingis og frumvarp væntanlegt í því sambandi.