133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.

104. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleðst mjög yfir svörum ráðherra og það er full ástæða til að þakka honum innilega fyrir hvað hann hefur brugðist vel við í málinu. Það hefur verið beðið mjög lengi eftir þessari breytingu og þeirri yfirlýsingu sem hér kemur fram og ég er sannfærð um að margir foreldrar langveikra barna munu fagna yfirlýsingu ráðherra sem að mínu mati er tímamótayfirlýsing. Það er mjög ánægjulegt að finna þann skilning sem kemur fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra í málinu vegna þess að þó að við höfum verið að kalla eftir því hjá forverum hans að leiðrétta það ranglæti sem þarna er þá hefur ekki verið brugðist við því. Ég er sannfærð um að ef brugðist hefði verið fyrr við þessu hefði það bætt stöðu og kjör fjölmargra foreldra fatlaðra barna. Þetta er sannarlega ekki mikill kostnaður eða útgjöld fyrir ríkissjóð en getur skipt sköpum fyrir foreldra langveikra barna.

Ég vænti þess að ráðherrann komi fljótt með málið inn í þingið þannig að það geti orðið að lögum fyrir jól og spyr hæstv. ráðherra hvenær við megum vænta þess að fá þetta frumvarp inn í þingið. Ég mun sannarlega beita mér fyrir því að það fái eins skjótan og greiðan aðgang í gegnum þingið og kostur er, en ég mun væntanlega fá það til umfjöllunar í félagsmálanefnd.

Ég vænti þess einnig að hæstv. ráðherra, sem hér sýnir velvilja sinn og hug í garð foreldra fatlaðra barna, skoði líka þær tillögur sem við erum með í þinginu um að lagfæra þá annmarka sem eru á lögum um greiðslu til foreldra langveikra barna sem urðu að lögum á síðasta þingi en á því máli eru miklir annmarkar sem þarf að skoða. En ég lýsi aftur þakklæti mínu til hæstv. ráðherra.