133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Herra forseti. Ég ber upp fyrirspurn um starfsmannaleigur. Það er staðreynd að erlent vinnuafl og starfsmannaleigur eru komin inn á íslenskan vinnumarkað og því miður hafa fylgt því miklar deilur síðustu árin.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði eftir lögum um starfsmannaleigur í utandagskrárumræðu í október 2003. Það kom síðan fram frumvarp frá félagsmálaráðherra í fyrra og við þá umræðu lýsti ég m.a. áhyggjum yfir því að frumvarpið gengi ekki nógu langt og þá helst varðandi notendaábyrgð fyrirtækja og aðgang fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að upplýsingum um kaup og kjör leigðra starfsmanna. Þess vegna lögðum við í Samfylkingunni fram breytingartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara sem fullnægi áskilnaði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu.“

Þessi tillaga var því miður ekki samþykkt af meiri hlutanum síðasta haust en þetta hefði bætt lögin til muna. Sökum þess hve lifandi íslenski vinnumarkaðurinn er og hve skammt mörgum fannst lagasetningin ganga fékkst það framgengt í félagsmálanefnd að lögin skyldu endurskoðuð innan tveggja ára. Nú eru, herra forseti, liðnir um tíu mánuðir og miðað við þær upplýsingar sem mér berast af vinnumarkaðnum frá launþegahreyfingunni tel ég rétt að staldra hér við og athuga reynslu af þessum lögum. Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hver er reynslan af lögum um starfsmannaleigur sem sett voru í fyrra?

2. Hversu margar starfsmannaleigur starfa í tengslum við íslenskan vinnumarkað?

3. Hversu margir erlendir starfsmenn á vegum starfsmannaleigna starfa hérlendis, hvernig skiptast þeir eftir starfsgreinum og hversu margir þeirra eru með viðurkenningu á menntun frá heimalandi sínu?