133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það hefur oft gerst á síðustu missirum að starfsemi starfsmannaleigna og framkoma Íslendinga við útlendinga í gegnum þær hefur verið smánarblettur á íslensku samfélagi. Auðvitað voru lögin til bóta og auðvitað horfir til betri vegar og margt er ágætt gert í þessu máli en það þarf að taka fast á því. Útlendingaandúðin fer vaxandi, popúlísk sjónarmið hægri öfgasinnaðrar útlendingaandúðar heyrast æ oftar og nú síðast í Blaðinu í dag var grein sem heitir „Ísland fyrir Íslendinga?“ Mjög sérkennilegir tónar þar. Útlendingaandúð fer vaxandi og við þurfum að grípa mjög fast um taumana þar og bregðast við þessu ástandi. Það þýðir ekki að láta reka á reiðanum í því af því að það stefnir í að málefni útlendinga og útlendingaandúð verði eitt af stærstu vandamálunum í íslensku samfélagi og það þarf að bregðast við því strax af því að vaxandi útlendingaandúð er andstyggileg meinsemd í samfélaginu.