133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:34]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði, að við eigum að taka hart á þeim sem ekki virða lög og reglur, hvort sem um er að ræða þetta mál eða önnur. Ég fullyrði að Vinnumálastofnun hefur lagt sig fram í því efni, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni.

Það gætir smámisskilnings í umræðunni. Ég nefndi áðan að á síðustu vikum hafi samtals verið skráðir um 990 starfsmenn á vegum starfsmannaleigna. Þeir eru að sjálfsögðu fleiri. Ég er því miður ekki með heildartöluna.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson taldi að lögin væru ekki nægjanlega sterk. Það er ekki langt síðan að þessi lög tóku gildi. Það hefur ekki fengist fullnaðarreynsla af þeim. Hins vegar hefur gengið mjög vel að innleiða þau. Ég vil meina að það hafi gengið ágætlega. Þau hafa reynst ágætlega það sem af er. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því hvernig þau reynast. Ef mönnum þykir tilefni til þá verður að sjálfsögðu farið yfir það mál.

Að öðru leyti ætla ég ekki að segja mikið meira um þetta en rétt út af því sem var rætt milli einstakra hv. þingmanna um málefni útlendinga og innflytjenda þá hvet ég til að umræða um þau mál sé málefnaleg. Hún þarf að fara fram. Ég hef hvatt til þess alls staðar þar sem ég hef haft tækifæri. Við þurfum að halda umræðunni málefnalegri og halda vel á spöðunum hvað það varðar.