133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, um hvort hafinn sé undirbúningur á vegum ríkisstjórnarinnar á frekari flutningi á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga, t.d. á rekstri framhaldsskóla eða löggæslu. Í öðru lagi spyr ég hvort tekjuskipting á milli ríkis og sveitarfélaga sé til endurskoðunar í ljósi breyttrar verkaskiptingar stjórnsýslustiganna.

Ég er eindregið á þeirri skoðun, frú forseti, að við eigum að stefna að því að stækka sveitarfélögin verulega. Okkur mistókst það í kosningum um það í fyrra en þó er ekki til þrautar reynt. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra að því í leiðinni hvort til skoðunar væri annað átak til að stækka sveitarfélögin. Með hvaða hætti yrði það framkvæmt og kemur t.d. lagasetning til greina?

Við eigum að stefna að því að stækka sveitarfélögin, dreifa til þeirra valdi og verkefnum. Rekstur framhaldsskóla er það skref sem við eigum að stíga næst. Þá hefðu sveitarfélögin á sinni könnu rekstur skólastiganna þriggja: leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Kostirnir við það eru margir en auðvitað þurfa sveitarfélögin að stækka um leið.

Ég held að allir séu sammála um að rekstur grunnskólans hafi tekið miklum framförum eftir að sveitarfélögin tóku við honum. Þangað eigum við að dreifa valdi, verkefnum og ábyrgð en um leið öflugum tekjustofnum.

Tekjustofnar sveitarfélaganna eru að mínu mati of veikburða. Það þarf að rétta þeirra hlut og gera þeim kleift að standa fyllilega undir verkefnum sínum. Við þurfum að forðast þá óheppilegu skörun sem oft er á milli stjórnsýslustiga sem bitnar til að mynda harkalega á uppbyggingu hjúkrunarheimila. Í sumum sveitarfélögum úti á landi, t.d. í Árborg, stefnir í hálfgert neyðarástand. Um margra ára bil hefur staða hjúkrunarheimilismála þar verið óviðunandi og með því eru bókstaflega brotin mannréttindi á öldruðu fólki.

Þetta getum við komið í veg fyrir í miklu meiri mæli með því að dreifa valdi og verkefnum til sveitarfélaganna ef öflugir tekjustofnar fylgja, t.d. hlutdeild í veltusköttum og slíku. Við eigum að stefna að því að færa löggæsluna, framhaldsskólann, öldrunarþjónustuna og heilsugæsluna til sveitarfélaganna í fyllingu tímans. Víða á Norðurlöndunum sinna sveitarfélögin 70% af opinberri þjónustu en hér er hlutfallið þveröfugt eða aðeins um 30%.

Við eigum að stefna í þá átt að færa vald, verkefni, ábyrgð og öfluga tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra.