133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum nokkuð flókið og umfangsmikið mál sem er flutningur á hugsanlegum verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Ég er sammála hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni um að varasamt sé að skera öll sveitarfélög hér á landi yfir sama kamb í þessum málum því sveitarfélög eru að sjálfsögðu misjafnlega vel stæð, misjafnlega vel í stakk búin til að taka við svona verkefnum.

Ég vil hins vegar nota tækifærið, virðulegi forseti, til að hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að skoða þessi mál með mun opnari huga en stjórnvöld hafa gert fram til þessa. Ég minni m.a. á að í mínu heimasveitarfélagi, Akranesi, þar sem ég er varabæjarfulltrúi, sendum við bréf til félagsmálaráðuneytisins í sumar þar sem við óskuðum eftir viðræðum við ráðuneytið um að taka við öldrunarmálunum. Við teljum okkur vel í stakk búin til að gera það í þessu tiltekna sveitarfélagi en það er þó alveg ljóst, virðulegi forseti, að með svona tilfæringum hljóta að fylgja einhverjir tekjustofnar á móti frá hendi ríkisins.