133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:54]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Umræða um málefni sveitarfélaga í sölum Alþingis er oft athyglisverð. En ég vil taka fram vegna þess að hv. þingmenn eru að kalla eftir afstöðu minni, að ég lýsti því m.a. í ræðu á landsþingi sveitarfélaga í september að ég teldi mikilvægt að viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um þessi mál færu af stað fljótlega og nefndi þar sérstaklega málefni fatlaðra og málefni aldraðra og byggði það m.a. á þeirri könnun sem ég sagði frá áðan. Minn hugur er því alveg ljós í þessu máli. Ég hef margoft sagt hann. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni verða þessi mál rædd á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga síðar í vetur. Ég vona að hv. þingmenn þurfi ekki að velkjast í vafa um minn hug í þessu máli, hann er skýr. En ég vil líka taka undir það sem hér hefur verið sagt og ég hef reyndar margoft sagt sjálfur að það er ekki nóg að færa verkefni, við þurfum að hafa tekjustofnana í lagi einnig. Það er ekki flóknara en það.

Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ítrekaða umhyggju fyrir Framsóknarflokknum. Það er gott að eiga hauka í horni í þessum sal, ég er auðvitað ánægður með það. Hins vegar veit ég ekki hvaða hugur fylgir máli nú frekar en fyrr en það er þó gott (Gripið fram í.) og yljar manni að heyra þessi góðu orð.