133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vaxtarsamningar.

135. mál
[15:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra minntist ekkert á Norðurland vestra í umfjöllun sinni.

Það kom fram í máli fyrirspyrjanda að reynslan væri góð af þessum samningum. Það má vera að verkefnin hafi reynst ágætlega, en hvernig metur maður svona verkefni? Maður hlýtur að meta þau af því hvort fólki fækkar eða fjölgar og hvort störfum fækki eða fjölgi. Ef við setjum þann mælikvarða á vaxtarsamning Vestfjarða þá er samningurinn ekki góður vegna þess að stjórnvöld hafa því miður grafið undan öðru atvinnulífi á Vestfjörðum, m.a. með því að setja trillurnar í kvóta. Það er búið að boða niðurskurð hjá Menntaskólanum á Ísafirði, störfum hefur verið fækkað hjá Ratsjárstofnun á Bolungarvík og svona má lengi telja. Það er ekki hægt að komast hjá umræðu um almenna byggðaþróun og hve stjórnvöld hafa staðið illa að málum með því að draga fram einhverja ljósritaða bæklinga eins og t.d. vaxtarsamninga Vestfjarða. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að taka á í byggðamálum.