133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það var sorglegt að hlýða hér á hæstv. byggðamálaráðherra. Auðvitað ber þó að þakka honum fyrir að koma hreint fram, koma eins og hann er klæddur til dyranna. Hann segir okkur frá því að hann ætli í rauninni ekki að virða þennan rétt, og að honum finnist það réttlætanlegt. Ég vil að hann skoði hug sinn og spyrji sig hvort það sé réttlætanlegt með einhverri verndun fiskstofna að svipta bændur réttinum til að nýta eignarlönd sín sem ná 115 metra út í sjó. Er í lagi með svona hugsanagang?

Ég get ekki séð að það sé hægt að finna einhverja stoð eða einhver rök fyrir því að þetta snúist um vernd fiskstofna, að svipta menn leyfi til grásleppuveiða í eignarlöndum sínum, svo að dæmi sé nefnt, eða veiða þar á krók eða í net. Þetta er í rauninni hrein og klár della.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hæstv. byggðamálaráðherra kemur hreint fram, heldur hefur hann áður komið fram með sína byggðastefnu. Það gerði hann fyrir tveimur árum. Þá skrifaði hann í Borgfirðingabók að hér ætti að mynda einhvers konar borgríki. Orðrétt segir í þessum skrifum hæstv. byggðamálaráðherra, með leyfi forseta:

„Íslenska sveita- og þorpasamfélagið er úr sögunni. Í stað þess er hér risið nokkurs konar borgríki, samfélag sem ber mjög ólík einkenni og lýtur allt öðrum lögmálum.“

Þetta er hinn nýi Framsóknarflokkur. Það er ágætt að bændur landsins viti að ef þeir merkja við B-ið í næstu kosningum eru þeir sömuleiðis að skrifa undir það að vera áfram sviptir eignarrétti sínum. Það er alveg stórundarlegt að Framsóknarflokkurinn sé kominn í þá stöðu (Forseti hringir.) að ráðast svo gegn hagsmunum bænda.