133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst í raun og veru undrunarefni að stjórnvöld skuli ekki sýna þessu máli meiri skilning, þ.e. að ekki skuli vera gert meira til þess að reyna að mæta þörf garðyrkjubænda fyrir ódýra raforku. Garðyrkjan er víða stóriðja, hún er ekkert annað en stóriðja og skapar mörg mikilvæg störf úti á landsbyggðinni, ekki síst á Suðurlandi. Ég minni líka á að á Suðurlandi er ein mesta raforkuframleiðsla landsins. Mér finnst mjög undarlegt að ekki skuli vera gert meira til að reyna að gera þessum atvinnuvegi hærra undir höfði. Þvert á móti höfum við séð beinar aðfarir að honum, til að mynda áttum við hér í fyrra mjög athyglisverða umræðu um tollamál þegar landbúnaðarráðuneytið felldi niður tolla á garðyrkjuvörum innfluttum til landsins sem kom þessum iðnaði mjög illa. Við sjáum á sama tíma einnig að málefni Garðyrkjuskólans á Reykjum, mjög merkilegrar skólastofnunar, eru meira og minna í uppnámi og mikilli óvissu þessa dagana.

Ég hlýt að lýsa miklum vonbrigðum með það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hvernig staðið er að þessari merku atvinnugrein nú um stundir.