133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra var ákaflega kaldar kveðjur til garðyrkjuframleiðslunnar í landinu. Það voru ákaflega nöturleg skilaboð og í skeytingarleysi hæstv. ráðherra felst aðför að stöðu atvinnugreinarinnar. Skeytingarleysið er algjört, og skilningsleysið, á þörfinni og það að skjóta sér á bak við óheimila mismunun eftir atvinnugreinum þegar verið er að niðurgreiða margfalt verð á raforku til stóriðjunnar í landinu og skjóta sér á bak við það að ekki sé hægt að mæta hinni brýnu þörf grænu stóriðjunnar, sem þessi gjaldeyrissparandi hollustu- og undirstöðugrein er í íslenskri matvælaframleiðslu, með neinum hætti eru stórfurðuleg pólitísk skilaboð og hljóta að kalla á ögn skarpari svör frá hæstv. ráðherra.

Það undraði mig mjög að í svari hæstv. ráðherra fælist ekki einu sinni ádráttur um að það kæmi til greina að mæta þeirri brýnu þörf sem garðyrkjan er í fyrir ódýrara rafmagn sem liggur frekari framleiðslu og öflugri rekstri þessara fyrirtækja fullkomlega til grundvallar. Þetta voru kaldar kveðjur, hæstv. forseti, nöturleg skilaboð til garðyrkjunnar í landinu og ég skora á hæstv. ráðherra að lýsa vilja sínum til góðra verka í þessa átt í staðinn fyrir að fara með þá rullu sem hann fór með hér áðan þegar allir vita að það er brunaútsala í gangi á rafmagni til erlendrar stóriðju og sú grein sem hér um ræðir mætir um leið algjöru skilningsleysi.