133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:52]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég man að við ræddum fyrir nokkrum árum áherslur hæstv. dómsmálaráðherra í löggæslumálum og þá með vísan í sérsveitir. Ég fagnaði áherslum hæstv. ráðherra á þeim tíma og er þeirrar skoðunar að efling sérsveitar lögreglunnar hafi haft jákvæð áhrif. Það er því ánægjulegt að heyra af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar að samstaða ríkir um það mál vegna þess að ég man að það var aldeilis ekki á hinu háa Alþingi á þeim tíma.

Óvopnaðir lögreglumenn njóta liðsinnis sérsveitarmanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Sérsveitarmenn eru alltaf á vakt og geta verið komnir á vettvang á skömmum tíma. Varðandi vopnaburð almennra lögreglumanna þá kalla þeir sjálfir ekki eftir þeirri breytingu. Lögreglumenn hafa ekki haft frumkvæði að því og það er mikilvægt að staðan haldist þannig að til þess þurfi ekki að koma. Hvorki lögreglumenn né glæpamenn almennt ganga með skotvopn þó að auðvitað séu sorglegar undantekningar á því, þ.e. í hópi glæpamanna. Það verður að haldast þannig. Að sjálfsögðu er ekkert útilokað í þessum málum og ef þetta mundi þróast til verri vegar yrði að taka á því. Vonandi getum við haldið sem lengst í óvopnaða almenna lögreglu en ég legg áherslu á að við getum áfram eflt sérsveitina og gert hana enn hreyfanlegri. Ég styð hæstv. dómsmálaráðherra í þeirri þróun og er þess fullviss að áherslur hans í löggæslumálum undanfarin ár séu mjög til góðs. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að gildi þess að geta haldið lögreglunni óvopnaðri en jafnframt tryggt öryggi hennar er ómetanlegt. Ég fagna því orðum hæstv. ráðherra um að ekki standi til að breyta þeirri stefnu.