133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[16:05]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi vopnabúnað lögreglumanna þá hefur það nú verið hér alveg frá fyrstu tíð að lögreglumenn hafa haft aðgang að vopnum. Þeir hafa æft skotfimi og þeir hafa verið þjálfaðir í meðferð skotvopna. Það er ekkert nýtt. Þeir hafa haft aðgang að vopnum og í lögreglustöðvum eiga menn að geta haft aðgang að vopnum og þeim búnaði sem nauðsynlegur er til að gæta síns öryggis. Þannig er það. Þannig hefur það verið.

Ég tel því bara að það sé mikil fáviska hjá þingmönnum ef þeir koma hér og tala eins og það sé eitthvert nýmæli að lögreglumenn á Íslandi hafi æft skotfimi eða búið sig undir að beita skotvopnum ef á þarf að halda og að það sé einhver vígvæðing að ræða það að lögreglumenn hafi slíkan búnað. Það er algjör misskilningur og bara fáfræði og ótrúlegt að menn standi hér í þinginu og ræði þetta og láti eins og það sé eitthvert algjört nýnæmi hér að menn fjalli um þetta. Það hefur verið fjallað um þetta hér áratugum saman. Menn hafa rætt þetta í þinginu hvernig lögreglan skuli búin. Alveg frá því á fjórða áratugnum liggja fyrir skýrslur um þetta og menn hafa rætt þetta opinberlega og farið yfir þetta þannig að það er ekkert nýmæli.

Nýmæli er hins vegar skipulagið sem var tekið upp með sérsveitinni frá og með mars árið 2004. Þá urðu líka miklar umræður um þetta í þinginu, allt annars konar umræður en fara fram hér nú um þetta mál. Þá var miklu minna skilningsleysi á málinu en kemur fram hér í dag. Að vísu er hér einn nýr ungur þingmaður sem ekki hefur tekið þátt í þessum umræðum og nálgast málið frá heldur sérkennilegum sjónarhóli þegar hugað er að öryggi borgaranna og öryggi lögreglumanna. Það er ekki verið að vígvæða þjóðina. Það er ekki verið að vígvæða lögregluna. Það er verið að tryggja öryggi lögreglunnar og tryggja öryggi borgaranna.