133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

skipan áfrýjunarstigs dómsmála.

268. mál
[16:09]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég svara hv. fyrirspyrjanda í stuttu máli. Er svar mitt á þann veg að ég tel sjálfsagt og eðlilegt að menn ræði millidómstig hér á landi. Mér sýnast hins vegar gallarnir við slíka breytingu í fljótu bragði fleiri en kostirnir. Hitt er að mínu mati ekki síður vert að íhuga hvort rétt sé að breyta dómstólaskipan á annan veg, sem sé þann að endurvekja að nýju skiptingu dómstóla í þá sem dæma í sakamálum og svo þá sem dæma í almennum einkamálum. Slíkur aðskilnaður gæti leitt af sér sérhæfðari dómara sem hefðu fyllri tök á flóknum viðfangsefnum.

Hv. þingmaður nefnir það sem ástæðu fyrir millidómstigi að áfrýjuðum málum hefur fjölgað. Vissulega er það rétt og vinnuálag á hæstaréttardómara er mikið. Á hinn bóginn tekst þeim að halda svo vel á málum að ekki er um neinn málahala að ræða og leyfi ég mér að segja að hér sé skilvirkni Hæstaréttar að þessu leyti meiri en í nokkru öðru landi. Það þarf því önnur rök fyrir millidómstigi en þau að dómarar í Hæstarétti hafi ekki undan í störfum sínum.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um meðferð sakamála sem hefur verið í opinberu kynningarferli á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er vikið að því álitaefni hvort hér eigi að verða þrjú dómstig með vísan til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu enda sé erfitt að koma henni við í framkvæmd vegna þess mikla álags sem hvíli á Hæstarétti. Réttarfarsnefnd sem samdi frumvarpið hafnar hugmyndinni um þrjú dómstig með þeim rökum að það mundi auka umtalsvert kostnað við dómskerfið og gera það jafnframt flóknara þannig að hætt yrði við að það tæki mun lengri tíma að afgreiða mál hjá dómstólunum en verið hefur hin síðari ár. Af þessum sökum sé ekki lagt til að svo afdrifaríkt skref verði stigið að þessu sinni þótt sjálfsagt sé að kanna kosti og galla slíkrar kerfisbreytingar.

Hins vegar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að það verði framvegis almenn regla að þrír dómarar skipi héraðsdóm ef ákærði neitar sök og sýnt er að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Það er því niðurstaða réttarfarsnefndar sem er undir formennsku Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara að það mundi aðeins flækja mál og tefja fyrir málum að taka upp millidómstig. Þess vegna er þetta ekki lagt til í frumvarpinu um meðferð sakamála sem er nú til skoðunar og umsagnar hjá ráðuneytinu og höfundar þess frumvarps telja að það eigi ekki að gera það. En vafalaust getur þetta mál komið hér til umræðu þegar og ef þetta frumvarp verður lagt fram á þessu þingi núna í vetur.