133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[13:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, lögum um prentrétt, nr. 57/1956, og samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.

Á undanförnum árum, eða allt frá því að breytingar á útvarpslögum tóku gildi hér á landi á árinu 1986 og leiddu til frelsis í fjölmiðlun, hefur mikil gróska og örar breytingar einkennt íslenskan fjölmiðlamarkað. Lagaumhverfi fjölmiðla hefur verið einfalt og litlar sem engar hindranir verið fyrir stofnun nýrra fjölmiðla og fjölmiðlafyrirtækja. Bæði hér á landi og í fjölmörgum öðrum löndum heims hefur þróunin orðið sú að fjölmiðlafyrirtæki hafa stækkað og eflst, auk þess sem samruni fjölmiðla, tölvutækni og fjarskipta hefur átt sér stað. Jafnframt hefur ör tækniþróun, ekki síst á fjarskiptamarkaði, kallað á heildstæða löggjöf eða reglusetningu sem nær m.a. til þeirrar samþættingar sem orðið hefur á sviði fjölmiðlunar og fjarskipta. Við þessar aðstæður hefur sífellt færst aukinn þungi í þá umræðu að þörf sé á ítarlegri löggjöf um þessa starfsemi.

Eins og kunnugt er hafa á undanförnum tveimur árum verið skipaðar tvær nefndir til að fjalla um eignarhald á fjölmiðlum og málefni fjölmiðla. Hin fyrri lauk störfum í apríl 2004 en hin síðari skilaði mér skýrslu sinni í apríl 2005.

Fyrri nefndin, sem starfaði undir forustu Davíðs Þórs Björgvinssonar, komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi hlutverks fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi og þarfarinnar fyrir fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, og með hliðsjón af almennri þróun löggjafar og tilmælum Evrópuráðsins, væri óhjákvæmilegt að gera breytingar á þeim lögum sem marka starfsskilyrði fjölmiðla hér á landi. Lagði nefndin til að ríkisstjórnin brygðist við aðstæðum á íslenskum fjölmiðlamarkaði með lagasetningu sem hefði það að markmiði að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun og hamla gegn samþjöppun eignarhalds

Frumvarp það sem unnið var á grundvelli tillagna fyrri fjölmiðlanefndarinnar olli hörðum deilum eins og við öll þekkjum. Í kjölfarið ákvað ég, hæstv. forseti, að skipuð skyldi önnur fjölmiðlanefnd til að sátt gæti náðst um þetta mikilvæga mál. Hin síðari nefnd var skipuð í nóvember 2004 og áttu í henni sæti fulltrúar allra þingflokka. Var nefndinni falið eftirfarandi verkefni:

að skoða þá þróun er á sér stað í evrópskri fjölmiðlalöggjöf,

að leggja mat á þá þróun sem fram undan er á fjölmiðlaumhverfi jafnt á Íslandi sem annars staðar í Evrópu með tilliti til stafrænna útsendinga,

að fjalla um markaðsstöðu Ríkisútvarpsins og hlutverk þess í samhengi við aðra fjölmiðla án þess þó að gera tillögur um breytingar á lögum um stofnunina, enda sérstök vinna þegar í gangi á vegum stjórnarflokkanna um þau mál,

að skoða samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum á Íslandi og gera tillögur um það til hvaða aðgerða beri að grípa til að sporna við of mikilli samþjöppun á eignarhaldi,

að meta hvaða breytingar og nýmæli séu æskileg í íslenskri löggjöf til samræmis við þá þróun og aðrar niðurstöður af almennri umfjöllun nefndarinnar.

Síðari fjölmiðlanefndin skilaði vandaðri og yfirgripsmikilli skýrslu sem hlaut ítarlega kynningu og umfjöllun, og var m.a. tekin umræða um hana á hinu háa Alþingi eftir að hún var komin út. Var það skoðun nefndarmanna að tryggja yrði með öllum tiltækum ráðum menningarlega og stjórnmálalega fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði svo að fjölmiðlar gætu sinnt þeim skyldum sínum gagnvart almenningi að koma fram með ólíkar skoðanir og fjölbreytt sjónarhorn, veita yfirvöldum og sterkum hagsmunaaðilum aðhald og efla lýðræðislega umræðu. Megintillögur nefndarinnar voru eftirfarandi:

að Ríkisútvarpið yrði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp með áherslu á sérstöðu þess og skyldur sem fjölmiðils í eigu allra landsmanna,

að settar yrðu reglur sem tryggðu gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum,

að reglur um leyfisveitingar til rekstrar hljóðvarps og sjónvarps yrðu teknar til endurskoðunar með það að markmiði að aðgreina ólíka miðla,

að eignarhald á fjölmiðlum, sem náð hafa ákveðinni útbreiðslu eða hlutdeild á markaði, yrði bundið takmörkunum með þeim hætti að aðilum yrðu sett hófleg takmörk um heimilan eignarhlut,

að settar yrðu reglur sem tryggðu aukið val neytenda þannig að efnisveitur fái aðgang að ólíkum dreifiveitum og dreifiveitur fái flutningsrétt á fjölbreyttu efni,

að mótaðar yrðu reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum,

að stjórnsýsla á þessu sviði yrði einfölduð þannig að málefni fjölmiðla væru sem flest á verksviði eins og sama stjórnvaldsins sem starfað gæti sjálfstætt og/eða í tengslum við núverandi Póst- og fjarskiptastofnun.

Í skýrslu síðari fjölmiðlanefndarinnar kom fram að leggja bæri áherslu á að öflug almenn umræða ætti sér stað um skýrsluna, efni hennar og tillögur áður en til lagasetningar kæmi. Því var síðan fylgt eftir. Á því eina og hálfu ári sem liðið er frá því að nefndin skilaði skýrslu sinni hefur átt sér stað mikil umræða um efni hennar og innihald. Jafnframt lá ljóst fyrir að töluverð vinna væri eftir áður en hægt væri að leggja fram frumvarp á Alþingi byggt á niðurstöðum nefndarinnar. Á þessum tíma hefur menntamálaráðuneytið viðað að sér margvíslegum upplýsingum um fyrirkomulag þessara mála í nágrannalöndum okkar og kannað þróun löggjafar að teknu tilliti til samruna fjölmiðla og fjarskipta, auk þess sem litið hefur verið til tilmæla Evrópuráðsins í þessum efnum.

Í lok desember á síðasta ári tók ég þá ákvörðun, í samráði við formenn stjórnarflokkanna, að skipa nefnd til að undirbúa og semja frumvarp til laga sem byggja átti á tillögum síðari fjölmiðlanefndarinnar. Upphaflega var hugmyndin sú að tilgreindir lögfræðingar yrðu fengnir, ásamt fulltrúum allra flokka á Alþingi, til að semja frumvarpið og var öllum þingflokkum því boðið að tilnefna fulltrúa sína í nefndina. Í byrjun janúar afþökkuðu stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi að tilnefna fulltrúa í slíka nefnd og tóku sérstaklega fram að þeir treystu þeim lögfræðingum sem tilnefndir voru til að vinna það verk, þ.e. að færa tillögur fjölmiðlanefndarinnar í þann búning sem við erum síðan að ræða um hér í dag.

Með skipunarbréfi, dags. 19. janúar sl., skipaði ég nefnd til að semja frumvarp til laga um fjölmiðla undir forustu dr. Páls Hreinssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands. Tekið var fram í skipunarbréfinu að við samningu frumvarpsins skyldi nefndin leggja til grundvallar umfjöllun og niðurstöður nefndar um íslenska fjölmiðla frá apríl 2005. Nefndin skyldi eiga samráð við fulltrúa allra þingflokkanna við samningu frumvarpsins. Frumvarp þetta er því afrakstur framangreindrar nefndarvinnu.

Virðulegi forseti. Ég mun nú fara yfir það hvernig stefnumótun hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar var síðan sett í lagabúninginn í frumvarpi þessu.

Fjölmiðlanefndin lagði til í skýrslu sinni að settar yrðu reglur sem tryggðu gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum. Má í þessu sambandi nefna að í tilmælum Ráðherranefndar Evrópuráðsins er mælt með því að aðildarríkin setji sér slíkar reglur og hafa þær m.a. verið settar á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Taldi fjölmiðlanefndin að reglurnar ættu að ná jafnt til útvarpsstöðva sem dagblaða og að almenningur ætti að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um hverjir ættu fjölmiðlana á hverjum tíma.

Taldi nefndin að gagnsæi á eignarhaldi væri nauðsynlegt til að almenningur gæti tekið afstöðu til annars vegar ritstjórnarstefnu/dagskrárstefnu og efni miðlanna hins vegar eins og það birtist almenningi.

Var stefnumörkun fjölmiðlanefndarinnar útfærð í frumvarpinu með þeim hætti að á heimasíðu útvarpsréttarnefndar skuli birtar upplýsingar um þann sem hefur hlotið útvarpsleyfi, útvarpsstjóra sem ber ábyrgð á útvarpsefni, dagskrárstefnu leyfishafa og síðari tilkynningar á breytingu hennar, reglur útvarpsstöðvarinnar um ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttastofu hennar, nafn þess einstaklings eða eigendur þess lögaðila sem rekur útvarpsstöðina, svo og úrskurði útvarpsréttarnefndar í málum útvarpsstöðvarinnar. Með því að gera framangreindar upplýsingar almenningi aðgengilegar á að vera tryggt að þau markmið náist sem fjölmiðlanefndin lagði til grundvallar stefnumótun sinni. Þetta er svipuð leið og farin hefur verið í norskum rétti.

Í frumvarpinu er jafnframt mælt fyrir um tilkynningarskyldu þegar breytingar verða á eignarhaldi á útvarpsstöðvum. Í ákvæðinu segir að seljandi og kaupandi beri ábyrgð á því að tilkynning um sölu á hlut í útvarpsstöð sé send útvarpsréttarnefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings. Til þess að hægt sé að hafa eftirlit með því að allir samningar hafi verið tilkynntir er einnig mælt svo fyrir að eftir sérhvern aðalfund í félögum sem hafa útvarpsleyfi skuli stjórn félagsins senda útvarpsréttarnefnd hlutaskrá félagsins innan fjögurra virkra daga frá því fundurinn var haldinn. Þá er jafnframt fjallað um viðurlög við því þegar tilkynningarskylda er vanrækt. Sambærilegar breytingar eru lagðar til í lögunum um prentrétt.

Fjölmiðlanefndin lagði enn fremur til að eignarhald á fjölmiðlum, sem náð hafa ákveðinni útbreiðslu eða hlutdeild á markaði, verði bundið takmörkunum með þeim hætti að aðilum verði sett hófleg takmörk um heimilan eignarhlut. Þessi leið sem fjölmiðlanefndin leggur til felur í sér að fjölmiðlar verða að vera í eigu fleiri en eins aðila. Er þessi regla m.a. við lýði í Frakklandi varðandi stöðvar sem hafa leyfi til að sjónvarpa á landsvísu. Er hugsunin sú að eigendurnir veiti hverjir öðrum aðhald þannig að ólík sjónarmið fái að njóta sín og að efnið í fjölmiðlunum verði fjölbreyttara.

Var það álit nefndarinnar að rétt væri að setja eignarhaldi skorður enda væru þær málefnalegar, almennar og meðalhófs gætt. Hafði nefndin m.a. eftirfarandi þætti í huga eins og segir í skýrslu nefndarinnar:

Evrópuráðið hefur lagt fram þau tilmæli til aðildarríkjanna að huga að því að setja í lög reglur til að hamla gegn samþjöppun sem gæti stefnt markmiðinu um fjölbreytni fjölmiðla í hættu. Mælt er með því að ríki skoði möguleika á því að afmarkaðir verði í lögum, við úthlutun leyfa eða aðra lagaframkvæmd, þröskuldar til að takmarka áhrif sem eitt fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa getur haft í einni eða fleiri greinum fjölmiðlunar. Einnig megi huga að því að setja takmörk á hlutafjáreign einstakra aðila í fjölmiðlafyrirtækjum. Séu slíkar takmarkanir settar skuli hafa í huga stærð fjölmiðlamarkaðarins í viðkomandi landi og fjárhagslegt bolmagn hans.

Svo sem ítarlega er rakið hér að framan einkennist fjölmiðlamarkaðurinn hér á landi, eins og víða erlendis, af verulegri samþjöppun á eignarhaldi. Slík samþjöppun er áhyggjuefni fyrir neytendur/almenning í ljósi þess að fjölmiðlar gegna margs konar hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi enda er gjarnan talað um fjölmiðla sem „fjórða valdið“. Þeir upplýsa, fræða og móta skoðanir almennings. Þeir skemmta, eru vettvangur fyrir auglýsingar og tilkynningar og farvegur fyrir skoðanir stjórnvalda, hagsmunahópa og almennings. Fjölmiðlar hafa það hlutverk að veita aðhald þeim sem fara með pólitískt og efnahagslegt vald á hverjum tíma. Í ljósi þessa verður að stuðla að fjölræði á markaðnum með það að markmiði að tryggja menningarlega og stjórnmálalega fjölbreytni.

Virðulegi forseti. Hér ber að hafa í huga að fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði var lítið rætt hér á landi fyrr en árið 2004 þegar skýrsla fjölmiðlanefndarinnar hinnar fyrri var lögð fram. Víða erlendis hafa þessi hugtök hins vegar um langt árabil verið veigamikill þáttur umfjöllunar um stefnumótun í fjölmiðlamálum.

Rétt er að skýra hvað átt er við með fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Með fjölbreytni er átt við að í fjölmiðlum sé ávallt í boði fjölbreytt efni af ýmsu tagi úr ólíkum áttum. Þá er einnig átt við að ólíkar lífsskoðanir og pólitísk viðhorf komi fram. Hugtakið er því bæði af menningarpólitískum toga auk þess sem það er samofið lýðræðishugmyndinni. Með fjölræði er síðan vísað til þess að fjölmiðlar séu ekki undir yfirráðum fárra aðila.

Hafa ber í huga að þessi markmið um fjölbreytni og fjölræði eiga að mörgu leyti undir högg að sækja. Fjölmiðlamarkaður víða um lönd einkennist af vaxandi samþjöppun eignarhalds. Þar sem fjarskipti og fjölmiðlar hafa runnið saman hefur það jafnframt ýtt undir svokallaða lóðrétta samþjöppun þar sem sami aðilinn ræður yfir öllum þáttum virðiskeðjunnar. Í frumvarpinu er brugðist við þessari þróun með þeim hætti að mælt er fyrir um takmarkanir á eignarhaldi á útvarpsstöðvum og prentmiðlum. Þar er miðað við 25% markið sem fjölmiðlanefndin lagði til. Þó er sá þröskuldur settur að þetta eigi aðeins við þær útvarpsstöðvar sem hafa þriðjungs markaðshlutdeild í heildaráhorfi eða heildarhlustun íslenskra dagskrárstöðva.

Í samræmi við tillögur fjölmiðlanefndarinnar er mælt svo fyrir að ef einstaklingur eða fyrirtæki og skyldir aðilar eiga fleiri en eina útvarpsstöð á sama markaði, þ.e. hljóðvarps- eða sjónvarpsmarkaði, skuli leggja saman markaðshlutdeild viðkomandi útvarpsstöðva. Sá varnagli er þó sleginn að aðeins skuli leggja saman markaðshlutdeild fjölmiðla eigi einstaklingur eða fyrirtæki og skyldir aðilar 10% eða meira í sérhverri útvarpsstöð. Að öðrum kosti gæti eignarhlutur, hversu smár sem hann annars væri í útvarpsstöð eða dagblaði sem hefði þriðjungs markaðshlutdeild, valdið því að 25% reglan yfirfærðist sjálfkrafa á aðra útvarpsstöð eða héraðsfréttablað ef eigandi hans keypti einnig mjög lítinn hlut í öðrum fjölmiðli. Breytti þar engu enda þótt eigandinn gæti í krafti hinna smáu eignarhluta engin raunhæf áhrif haft á rekstur útvarpsstöðvanna eða dagblaðanna.

Í tillögum fjölmiðlanefndarinnar um takmarkanir á eignarhaldi á útvarpsstöðvum var rætt um skylda aðila, annars vegar þegar reikna bæri hvort útvarpsstöð hefði þriðjungs markaðshlutdeild, en þegar einstaklingur eða fyrirtæki og skyldir aðilar ættu fleiri en eina útvarpsstöð á sama markaði skyldi leggja saman útbreiðslu svo og markaðshlutdeild viðkomandi útvarpsstöðva. Hins vegar var á því byggt að fyrirtæki og skyldir aðilar ættu ekki samanlagt meira en 25% eignarhlut.

Í frumvarpinu merkir hugtakið „skyldir aðilar“ fyrirtæki sem tilheyra sömu fyrirtækjasamstæðu í skilningi samkeppnislaga og fyrirtæki sem hafa önnur náin tengsl en samstæðutengsl sem leitt geta til yfirráða samkvæmt samkeppnislögum. Til þess að tryggja samræmda skýringu á samkeppnislögum er mælt svo fyrir að útvarpsréttarnefnd geti leitað umsagnar Samkeppniseftirlitsins um skýringu ákvæða í einstökum málum.

Í frumvarpinu er jafnframt sleginn sá varnagli að ef útvarpsstöð á í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum sem bregðast verði við með fjárhagslegri endurskipulagningu geti stjórn útvarpsstöðvarinnar sótt um tímabundna undanþágu til Samkeppniseftirlitsins frá takmörkunum á eignarhaldi.

Fjölmiðlanefndin lagði einnig til í skýrslu sinni að settar yrðu reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum. Slíkar reglur ættu að tryggja betur stöðu einstakra blaða- og fréttamanna, þar með talið stjórnenda á því sviði, gagnvart eigendum fjölmiðilsins. Taldi nefndin að slíkar reglur þyrftu að ná til starfsumhverfis blaða- og fréttamanna, fjalla um skilyrði áminningar og brottvikningar og miða að því með öðrum hætti að útiloka svo sem frekast er kostur afskipti einstakra eigenda fjölmiðils af fréttaflutningi og annarri sjálfstæðri dagskrárgerð. Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði taka á innihaldi fjölmiðla og er ætlað að draga úr skaðlegum áhrifum samþjöppunar eignarhalds. Slíkar reglur eru venjulega settar án íhlutunar stjórnvalda og gjarnan í samkomulagi milli eigenda fjölmiðils og starfsmanna hans. Oft er það því eftirlátið fjölmiðlinum sjálfum að ákveða hvort slíkar reglur séu settar. Í Austurríki og Portúgal eru til að mynda ákvæði í lögum um að setja beri hliðstæðar reglur af hálfu fjölmiðla.

Í frumvarpinu var stefnumörkun fjölmiðlanefndarinnar útfærð með þeim hætti að útvarpsstöðvar sem reka fréttastofu skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði hennar og skuli þær samdar í samráði við starfsmenn fréttastofu og starfsmannafélög þeirra.

Í frumvarpinu er ætlast til þess að í reglunum sé fjallað um starfsskilyrði stjórnenda fréttastofu og fréttamanna við að framfylgja dagskrárstefnu útvarpsstöðvarinnar, starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttamanna gagnvart eigendum útvarpsstöðvarinnar og skilyrði áminningar og brottvikningar fréttamanna. Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í breytingum á lögum um prentrétt. Þess ber þó að geta að engin viðurlög eru við því þótt slíkar reglur séu ekki settar. Frekar ber að líta á lagasetninguna sem hvatningu til setningar slíkra reglna.

Þá lagði fjölmiðlanefndin til í skýrslu sinni að settar yrðu reglur um flutningsrétt og flutningsskyldu á sjónvarpsefni. Sérstök áhersla var á það lögð að lögfestingarreglum um flutningsrétt og flutningsskyldu mundu auka val neytenda og draga úr áhrifum lóðrétts eignarhalds. Með hugtakinu „flutningsreglur“ er átt við tvennt. Annars vegar er átt við flutningsskyldu sem þýðir að hægt er að skylda dreifiveitur til að flytja ákveðna dagskrá frá efnisveitum í kerfum sínum, hins vegar á hugtakið við flutningsrétt sem þýðir að dreifiveitum verði gert kleift að fá til dreifingar það efni eða þær dagskrár sem þær kjósa frá efnisveitum.

Ástæðan fyrir aukinni umræðu um flutningsreglur er sú að eftirsóknarvert sjónvarpsefni hefur á undaförnum árum safnast á fárra hendur og er oft aðeins aðgengilegt á dreifikerfum tengdum ákveðnum efnisveitum. Ein leiðin er að nota flutningsreglur til þess að gera eftirsóknarvert sjónvarpsefni aðgengilegt öllum almenningi. Markmiðið með flutningsreglum er að auka val neytenda, stuðla að samkeppni og lækka aðgangsþröskuld nýrra efnisveitna og dreifiveitna inn á stafrænan sjónvarpsmarkað enda ná reglurnar einungis til stafrænna kerfa.

Í frumvarpinu er fjallað um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að hægt sé að skylda fjarskiptafyrirtæki að ósk útvarpsstöðvar til þess að flytja dagskrá útvarpsstöðvarinnar um fjarskiptanet fyrirtækisins. Meðal skilyrðanna er að um sé að ræða sjónvarpsdagskrá sem send er út á rauntíma með hefðbundnum stafrænum gæðum. Þá er fjallað um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að fjarskiptafyrirtæki geti fengið að dreifa dagskrá útvarpsstöðvar á dreifikerfi sínu. Rýmri reglur gilda um flutningsrétt en flutningsskyldu. Reglur um flutningsrétt taka ekki einvörðungu til íslenskrar dagskrár útvarpsstöðva sem staðfestu hafa hér á landi heldur einnig erlendra sjónvarpsdagskráa sem íslensk útvarpsstöð hefur gert einkaréttarsamning um svo og útsendingu á ákveðnum listviðburðum sem ekki fylla heila dagskrá, svo sem íþrótta- og listviðburðum.

Í frumvarpinu er byggt á þeirri meginreglu að samningsfrelsi ríki á milli útvarpsstöðva og fjarskiptafyrirtækja. Takist hins vegar ekki samningar innan 30 daga um flutning á sjónvarpsdagskrá getur hvor aðili vísað málinu til útvarpsréttarnefndar. Útvarpsréttarnefnd úrskurðar um allan ágreining sem upp kann að rísa við framkvæmd á flutningi efnis í tilefni af úrskurði nefndarinnar um flutningsrétt eða flutningsskyldu og getur lagt á dagsektir fari útvarpsstöð eða fjarskiptafyrirtæki ekki að úrskurðum hennar.

Að lokum fjallaði fjölmiðlanefndin í skýrslu sinni um stjórnsýslu á sviði fjölmiðlamála. Ástæðan er sú að þær breytingar á löggjöfinni sem settar eru fram af hinni þverpólitísku nefnd útheimta grundvallarbreytingar á tilhögun allrar stjórnsýslu varðandi fjölmiðla. Við samningu frumvarpsins var ákveðið að leggja fyrri tillögu fjölmiðlanefndarinnar til grundvallar. Í frumvarpinu er því lagt til að hlutverki útvarpsréttarnefndar verði breytt og það rýmkað. Lagt er til að nefndin fái heimild til að ráða sér til aðstoðar framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir því sem fjárveitingar til nefndarinnar leyfa hverju sinni. Þá er fellt undir starfssvið nefndarinnar eftirlit og framkvæmd á nýjum ákvæðum í útvarpslögum, lögum um prentrétt og samkeppnislögum. Af þeim sökum er skipunarhætti nefndarinnar breytt og er lagt til að dómsmálaráðherra tilnefni hér eftir einn nefndarmann, Hæstiréttur annan og sá þriðji verði skipaður án tilnefningar af menntamálaráðherra.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginþætti frumvarpsins. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir tillögur hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar og hvernig tillögur hennar hafa síðan verið útfærðar í þessu frumvarpi. Með frumvarpinu er í öllum meginatriðum fylgt þeirri stefnumótun í fjölmiðlamálum sem nágrannalönd okkar í Evrópu hafa fylgt fram til þessa. Einnig er brugðist við tilmælum Evrópuráðsins um hvernig tryggja beri fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði og draga megi úr lóðréttri samþjöppun.

Ég legg áherslu á að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélögum eins og við vitum. Fjölmiðlar eru m.a. frétta- og upplýsingaveitur svo að almenningur geti verið upplýstur, geti myndað sér skoðanir og tekið afstöðu til ólíkra mála. Sá munur er því á fjölmiðlum og öðrum fyrirtækjum á markaði að þeir miðla upplýsingum og skoðunum og hafa þannig áhrif á viðhorf almennings til manna og málefna.

Hæstv. forseti. Mál það sem ég hef hér mælt fyrir er á margan máta sérstakt og aðdragandi þess ber því órækan vitnisburð. Ég vil leyfa mér að ítreka þá skoðun mína að hér sé á ferðinni mál sem varðar miklu um það hvernig þeirri umræðu sem nauðsynleg er í sérhverju lýðræðissamfélagi vindur fram. Ég hvet til þess að þetta mál fái ítarlega og gaumgæfilega meðferð hér í þinginu og að þingið ákvarði nú hver og hvaða meðferð sé þessu máli þóknanleg enda í rauninni fyrsta tækifærið sem þingið fær til þess að fara yfir í frumvarpsformi tillögur nefndarinnar sem byggjast á hinni svokölluðu þverpólitísku sátt.

Að þessu mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að umræðu lokinni.