133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að stjórnarandstaðan stóð saman um bókun með skýrslunni sem fjölmiðlanefnd sendi frá sér. Mér láðist að minnast á þá bókun í ræðu minni. En það er alveg hárrétt, stjórnarandstöðunni hefur lánast að standa mjög vel saman í þessu máli og ég held að við getum verið sammála um þetta meginstef í bókuninni, að samhliða því að innleiða nýja löggjöf á fjölmiðlamarkaði þá þurfi að efla stöðu Ríkisútvarpsins.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur svo sem tekið undir þau sjónarmið okkar þó svo að ég leyfi mér ævinlega að efast um að full eindrægni ríki í yfirlýsingum sjálfstæðismanna hvað það varðar því að við vitum að þar eru tvö sjónarmið á lofti. Ákafinn í að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið gerir það að verkum, að mínu mati, að það komi til með að veikja stofnunina enn frekar frá því sem verið hefur og stjórnvöld hafa tekið þátt í þeirri veikingu sem átt hefur sér stað fram að þessu. Þau hafa því ekki sýnt vilja sinn í verki fram að þessu varðandi öflugt ríkisútvarp.

Varðandi síðan það sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að hægt sé að stýra með einhverjum hætti því sem frjálsu fjölmiðlarnir svokölluðu leggja af mörkum, þá er það auðvitað rétt. Hins vegar er ég samt svolítið vantrúuð á að það eigi í sjálfu sér að vera að stýra því svo mikið. Ef við náum að efla menningarstofnunina okkar, Ríkisútvarpið, sem í mínum huga er máttarstólpi menningar í landinu á þessu sviði, þá treysti ég því að það veiti fjölmiðlunum sem eru þar í kring ákveðið aðhald og líka samkeppni, tryggi það að þeir verði betri og keppi hærra. Við höfum BBC sem dæmi um það í Bretlandi, við höfum Arte sem dæmi um það í Frakklandi. Ég er því enn þá alveg sannfærð um að sterkt og gott Ríkisútvarp eigi eftir að geta skilað öflugri fjölmiðlun og öflugri fjölmiðlum úti á hinum almenna markaði.