133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara örlítið um þetta. Varðandi auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins, ég hef alltaf verið svolítið efins um að við getum alveg borið okkur saman við Breta hvað þetta varðar, enda erum við svo miklu fámennara samfélag. Ég hef haft nokkurn vara á því að við ættum að aflétta eða taka auglýsingarnar frá Ríkisútvarpinu. Í fyrsta lagi vegna þess að ég hef aldrei treyst þeim stjórnvöldum sem hafa verið hér við völd til að sjá þá Ríkisútvarpinu fyrir tekjustofnum að sómi gæti verið að því, það hefur kannski verið meginástæðan fyrir því.

En líka hitt, að ég held að auglýsingar séu ákveðin þjónusta við samfélagið og í þessu dreifða samfélagi okkar held ég að sé líka ákveðin þörf fyrir að hafa a.m.k. að einhverju marki auglýsingar og tilkynningar frá hinu opinbera og það sem við þekkjum úr Ríkisútvarpinu til staðar í Ríkisútvarpinu. (ISG: … annaðhvort eða.) Nei, auðvitað þarf það ekki að vera annaðhvort eða, þetta má vissulega vera í bland. Ég hef líka hugsað sem svo að þær hugmyndir eigi fullan rétt á sér að trappa það þá niður að einhverju leyti því að auðvitað getum við líka verið sammála um að of mikið magn af auglýsingum á dagskrártíma er náttúrlega ekki dagskrárefni og beinlínis leiðinlegt að sitja undir. Það þekkja allir þörfina hjá sér til að skipta um stöð þegar auglýsingatímarnir byrja. Já, já, ég held að líka sé hægt að finna ásættanlega leið í þessum efnum og ásættanlega niðurstöðu.